Í Sildarminjasafninu
Í Sildarminjasafninu

Nemendur í menningarlæsi fóru í námsferð til Siglufjarðar í morgun. Alls fóru fjórir bekkir í þetta sinn - um 100 nemendur alls. Á haustönninni fóru fimm bekkir, um það bil 120 manns.

Logi Ásbjörnsson og Sverrir Páll sögðu frá því helsta sem brá fyrir augu á leiðinni til Siglufjarðar og í Héðinsfirði var áð um stund, sagt frá byggðinni þar og stórtíðindum fyrri tíma og hlustað á þögnina í heila mínútu.

Í Roaldsbrakka kynnti Arnar Már Arngrímsson sögu síldaráranna, Sverrir Páll fór í gegnum vinnuna á síldarplani þegar saltað var, Páll Helgason fræddi um eitt og annað í bræðslusafninu Gránu og Steinunn M. Sveinsdóttir fagstjóri safnsins tók á móti hópunum í Bátahúsinu. Að vanda var hádegishlé í Safnaðarheimilinu á kirkjuloftinu og sögustund í kirkjunni með sr. Sigurði Ægissyni og hljómborðsleikaranum Sturlaugi Kristjánssyni og sungið þar við raust. Nemendur fluttu þar líka tvö söngatriði.

Veður var gott, logn og hlýrra úti en inni, fáeinir dropar gerðu vart við sig af og til en í heild var þetta hin besta ferð.

 

Margar myndir á facebook.com/menntaskoli