Glæsibúnir fjórðubekkingar syngja skólasönginn
Glæsibúnir fjórðubekkingar syngja skólasönginn

Árshátíð MA 2015 var haldin í gær í fagurskreyttum töfraskógarsal í Íþróttahöllinni.

Mikið var að vanda lagt í hátíðina, en nemendur hafa undanfarnar vikur unnið hörðum h0ndum að skreytingum og æfingum dagskráratriða. Í upphafi gengu fjórðubekkingar í salinn, stúlkurnar á upphlutum og peysufötum en drengirnir í hátíðarbúningum og þjóðbúningum. Hópurinn skipaði sér á palla og hóf hátíðina með því að syngja skólasönginn við undirleik Tuma Pálmasonar konsertmeistara. Því næst söng Kór MA nokkur lög undir stjórn Guðlaugs Viktorssonar og að því loknum hrönnuðust upp dagskráratriði og veislumatur. Að lokinni pakkaðri dagskrá var stignn dans - gömlu dansarnir á efri hæð við undirleik Þuríðar formanns og hljómsveitar en á neðri hæð voru Úlfur úlfur og FM Belfast.

Heiðursgestur á Árshátíð MA í þetta sinn var Atli Örvarsson tónskáld, sem lengi hefur starfað í Hollywood og samið tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti, en líka hér á Íslandi, þar sem hann gerði meðal annars tónlist við verðlaunakvikmyndina Hrúta. Atli, sem varð stúdent frá MA 1989, er nýfluttur heim til Akureyrar með fjölskyldu sinni, og vinnur jafnt hér og erlendis að listsköpun sinni.

Sem stundum fyrr var eitt viðamesta atriði kvöldsins danssýning Prima. Glæsileg myndasyrpa Agnesar Heiðu Skúladóttur af dönsurunum er á Facebooksíðu skólans. Þa er líka syrpa af myndum Sverris Páls af fjórðubekkingum að búa sig undir að ganga í hátíðarsalinn.