Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson

Ágætu nemendur,
aðstoðarskólameistari,
aðrir tilheyrendur,

Undir skólans menntamerki mætast vinir enn í dag. Svo kvað Davíð Stefánsson frá Fagraskógi í hátíðarljóði sem ort var í tilefni fimmtíu ára afmælishátíðar Möðruvallaskóla árið 1930, við lag Páls Ísólfssonar. Þið lærið þennan söng, skólasöng ykkar, og syngið. Starfið hér byggir óneitanlega á gömlum merg og hér mætast vinir enn í dag.

Hefðir, siðir og venjur hafa alla tíð skapað vissan ramma og formfestu utan um skólahaldið hér norðan heiða. Hér hefur verið útskrifað á 17. júní og hátíðarhöldin setja mikinn svip á þjóðhátíðina á Akureyri, höfuðstað Norðurlands. Gamlir stúdentar flykkjast hingað aftur til bæjarins og fagna stúdentsafmæli svo eftir er tekið. Heilir þrír dagar eru undirlagðir til hátíðarhalda. Augljóst er að stúdentar frá Menntaskólanum á Akureyri halda tryggð við sinn gamla skóla.

Lengi vel var skóli settur í MA seint á haustin, og þá í takt við gamla atvinnuhætti og venjur. Nemendur söfnuðust saman á Langagangi og í stigagöngum gamla skólans, héldu söngsal, og sungu sér inn frí á afmælisdegi Matthíasar Jochumssonar til þess að geta gert sér glaðan dag, átt náðugan frídag nú eða gengið til rjúpna ef því var að skipta. Söngur hefur ætíð einkennt skólabraginn og færði Íslendingum MA Kvartettinn, einn vinsælasta söngkvartett íslenskrar tónlistarsögu og eins var Vilhjálmur Vilhjálmsson nemandi við skólann. Fleiri mætti auðvitað nefna.

Árshátíð MA er haldin 1. desember ár hvert og er um leið ein glæsilegasta hátíð ár hvert þar sem fullveldi Íslendinga er fagnað. Sú hátíð og aðrar skemmtanir nemenda eru áfengis- og vímuefnalausar. Umgjörðin sem hér er um skemmtanahald nemenda er algjörlega til fyrirmyndar en vissulega getur komið fyrir að nemendur og skólayfirvöld greini aðeins á, ef svo má segja. Þá eruð þið tekin á beinið. Um þann sið fékk ég þær upplýsingar frá fyrrverandi nemanda að stúlka austan af Langanesi hefði fært Sigurði Guðmundssyni hvalbein að gjöf árið 1921, eftir hvalreka, og hann síðan notað það í skólameistaratíð sinni.

Fleiri fróðleiksmola fékk ég frá vinum mínum úr Menntaskólanum á Akureyri. Um leið og ég bað þá um dálitla hjálp vegna þessarar heimsóknar hingað stóð alls ekki á svörum. Fólk lagði allt frá sér í dagsins önn og minningar voru rifjaðar upp í erg og gríð. Mér þykir til vitnis um góðan brag skólans að langflest sem þá kom til tals var hægt að nýta í ávarp af þessu tagi – ekki allt en því sem næst. Sömuleiðis fannst mér mikið til þess koma að þessir stúdentar frá MA voru greinilega stoltir af sínum gamla skóla, hugsuðu til hans með hlýhug. Og einu hjó ég sérstaklega eftir: blómlegu menningarlífi og virðingu fyrir íslenskri sögu og menningu. Hér rekið þið nemendafélagið Hugin og skólablaðið Munin, haldið Viðarstauk (sem er góð og gild þýðing á Woodstock-hátíðinni frægu); þið starfrækið blómlegt leikfélag, syngið Hesta Jóa af lífs og sálarkröftum og lengi mætti áfram telja.

Forseti Íslands í MA

Það er enda svo að ýmsir andans menn hafa numið hér við skólann. Marga mætti nefna en ég get hér aðeins Kristjáns Eldjárns. Í nýrri bók eftir Árna Björnsson þjóðháttafræðing með meiru er stuttur kafli um hann. Þar segir Árni meðal annars: „Kristján gegndi svo ábyrgðarmiklu starfi mestan hluta ævinnar sem þjóðminjavörður og forseti Íslands að ekki væri nema von að ókunnugir og einkum yngra fólk ályktaði sem svo að hann hefði fyrst og síðast verið alvörugefinn embættismaður. Samviskusamur var hann án nokkurs vafa og vandaður fræðimaður en í daglegri umgengni var Kristján einkar léttur í máli og gamansamur án þess að fara nokkru sinni með flatbrandara sem sumir halda að sé merki um skopskyn.“ Eflaust kannast einhverjir hér í salnum við Unndórsrímu Kristjáns. Ég læt þó hjá líða að vitna í hana.

Þá hafa kennarar verið hér margir og notið virðingar og farsældar. Gísli Jónsson bar íslenska tungu fyrir og þótti afburðakennari. Í dálitlu framhjáhlaupi leyfi ég mér að geta þess að einn vina minna úr hópi MA-stúdenta staðhæfði við mig að virðingarröð embætta á Íslandi væri sem segir: Fyrst er það Forseti Íslands, síðan Málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins og í þriðja sæti Skólameistari Menntaskólans á Akureyri.

Nú, Stefán Þorláksson sagði sögur af slíkri innlifun í kennslustundum að sögur bárust af því um allt land. Tímatal í Menntaskólanum á Akureyri var lengi vel miðað við fyrir og eftir veikindi Ásmundar Jónssonar enskukennara; þar fór kennari sem naut slíkrar virðingar að í einum bekk voru gefin út skýr skilaboð um að allir skyldu læra heima til þess að særa ekki Ásmund. Sjálfur hef ég kynnst Kristínu Sigfúsdóttur sem hefur mikið látið að sér kveða í umhverfis, jafnréttis- og forvarnarmálum. Ég vona að á engan sé hallað þó ég nefni nokkur nöfn kennara sem fólk hefur sagt mér frá.

Einn þeirra kosta sem margir nefna um skólann er jafnvægið milli Akureyringa og aðkomufólks. Hér hefur gjarnan verið frábær blanda nemenda alls staðar af á landinu. Líf og starf á heimavist skólans hefur átt sinn þátt í því hve sterk böndin verða hér og vinátta nemenda traust. Hugsanlega skiptir bekkjarfyrirkomulag einnig máli þó að það sé skólapólitískt mál og ekki mitt að kveða of fast að orði um það.

En þegar allt kemur til alls byggist gott skólastarf ekki að mestu á formfestu, siði og venjum. Það er fólkið sjálft sem skapar skólann hverju sinni, nemendur, kennarar og annað starfsfólk. Þess vegna er Menntaskólinn á Akureyri í góðum höndum. Vissulega má skóli ekki staðna, margt þarf að breytast og þróast í tímans rás. Um leið og ég segi það vona ég þó að þið haldið í gamlar venjur eftir föngum og verðið seinna eins stolt af skólanum ykkar og þeir sem á undan ykkur hafa gengið um ganga hér.

---

Ávarpið birtist fyrst á vef forseta Íslands
Myndir tók Guðjón Heinn Hauksson