Birkir Blær
Birkir Blær

Vel heppnaðri söngkeppni MA er lokið. Birkir Blær Óðinsson hreppti fyrsta sætið, Margrét Hildur Egilsdóttir varð í öðru sæti og félagar úr SauMA í því þriðja.

Keppnin fór fram í Hofi. Alls voru á dagskrá 19 atriði og um það bil helmingur þeirra við undirleik húshljómsveitarinnar, sem var afar góð – og ung. Þrír af fimm hljóðfæraleikurunum eru í 1. bekk, einn í öðrum bekk og einn í fjórða bekk. Birkir Blær Óðinsson í 2. bekk lék á kassagítar, fyrstubekkingarnir Hafsteinn Davíðsson á trommur, Jóhann Þór Bergþórsson á bassa og Pétur Smári Víðisson á rafgítar og Una Haraldsdóttir í 4. bekk lék á píanó og hljómborð. Kynnar voru Hjörvar Blær Guðmundsson og Jón Heiðar Sigurðsson.

Dómnefndin var skipuð reynsluboltum, en þar voru Hrafnkell Örn Guðjónsson, Salka Sól Eyfeld og Unnsteinn Manuel Stefánsson. Þau létu fögur orð falla um keppendurna og hljómsveitina og röðuðu í þrjú efstu sætin. Gestir í sal völdu svo „vinsælasta atriðið“ en það var Eyrún Lilja Aradóttir sem söng lokalagið Simply the best, úr smiðju Tinu Turner, og salurinn tók vel undir.

Í fyrsta sæti valdi dómnefndin Birki Blæ Óðinsson, sem flutti Ninu Simone lagið I put a spell on you. í eigin magnaðri útfærslu. Í öðru sæti varð Margrét Hildur Egilsdóttir sem söng af mikilli list lagið Lately eftir Stevie Wonder. Í þriðja sætinu varð svo sönghópurinn Sauma, kórfélagar úr MA, sem sungu fallega útsetningu á Imagine Johns Lennon.

Myndirnar tók Eyþór Ingi Jónsson.

Söngkeppni MA 2018
Unnsteinn Manuel óskar Birki Blæ til hamingju.

Söngkeppni MA 2018
Fyrir miðri mynd eru Eyrún Lilja, Margrét Hildur og Birkir Blær og hægra megin eru nokkrir úr SauMA-hópnum.