Nú er ljóst að breytingar á skólaárinu í Menntaskólanum á Akureyri verða frá og með komandi hausti. Skólinn verður því settur fimmtudaginn 31. ágúst 2017. Ramminn utan um þessar breytingar hefur verið settur en á Þorrastefnu starfsfólks og á skólafundi í upphafi nýrrar annar er gert ráð fyrir að ganga frá skipulagi annanna.

Eins og fram hefur komið hefur verið unnið að því að færa skólaárið í MA og námunda skólatimann við aðra framhaldsskóla, meðal annars til að greiða fyrir samstarfi skólanna á Norðurlandi eystra, en ekki fengist fé sem þarf til að svo geti orðið. Einnig hefur komið fram að á fjáraukalögum hafi skólinn nú fengið upphæð sem nemur um helmingi kostnaðarins. Fjallað hefur um málið á fundi skólanefndar og skólameistari kynnt það á fundi með kennurum og starfsfólki. Þá hefur það verið kynnt nemendum á Sal og stjórn skólafélagsins Hugins átt fundi með skólameistara um málið. Í ljósi umræðna og athugasemda á þessum fundum er sýnt að unnt verði að ljúka meginhluta prófa fyrir jólaleyfi. Prófum á vorönn mun ljúka í fyrstu viku júní og brautskráning verður sem verið hefur 17. júní.

Margir velta fyrir sér ástæðum þessara breytinga. Með samræmi í skólatíma verður auðsóttara fyrir nemendur skólans að þreyta inntökupróf í háskóla, sem rekast á við próftíma MA, og fá þá í hendur prófskírteini, sem fylgja eiga umsóknum í háskóla. Gera má ráð fyrir minni  streitu í jólaleyfi ef hægt er að ljúka önninni fyrir jól. Endurmenntunarnámskeið fyrir kennara eru nú yfirleitt annað hvort á prófatíma í MA eða í ágúst þegar kennarar eru enn í sumarleyfi, en breytingin jafnar þann tíma.

Jón Már Héðinsson skólameistari segist líta svo á að þessi tilfærsla sé skref í áttina að því að samræma skólaár framhaldsskólanna. Í fyrra hafi hann staðið frammi fyrir sambærilegu dæmi, að fá fé til að fara hálfa leið, en hafnað því. Að þessu sinni vilji hann taka skrefið sem áfanga að markinu. Vssulega séu ekki allir á einu máli nú frekar en annars þegar einhverju er breytt. Hann segir að í góðu samráði við nemendur og kennara og samhenta og tillagagóða stjórn skólafélagsins Hugins efist hann ekki um að gengið verði frá breytingunum á næstu vikum í sæmilegri sátt við alla sem hlut eiga að máli.