Í desember tóku nemendur 1. og 2. bekkjar þátt í áfangamati, sem lagt var fyrir á vegum sjálfsmatsnefndar skólans. Áfangamatið er hluti af lögboðnu sjálfsmati skólans og í því er viðhorf nemenda gagnvart námsefni, kennslu og uppsetningu áfanga kannað, en nemendur svöruðu spurningum um alla áfanga sem þeir eru skráðir í. Svörunin var mjög góð, 95% nemenda í 1. bekk og 89% nemenda í 2. bekk svöruðu könnuninni. Þetta er mikil framför, en undanfarin ár hefur þátttaka í slíkum könnunum farið lækkandi og var um 50% í fyrra.

Kennarar hafa fengið svör sinna nemenda í hendurnar og munu nota þau til að þróa kennsluna frekar, enda eru uppbyggilegar ábendingar um skólastarfið alltaf vel þegnar. Áfangakönnuninni verður svo fylgt eftir með starfsmannaviðtölum.

Svörin voru ekki rekjanleg til nemenda, en dregnir voru út happdrættisvinningar úr hópi þeirra sem svöruðu. Þau heppnu eru Aníta Hrund Hjaltadóttir 1G, Halldór Mar Einarsson 1E, Tómas Veigar Eiríksson 1B, Guðfinna Rós Sigurbrandsdóttir 2T, Heiðrún Eva Þórisdóttir 2X og Marta Ýr Magnúsdóttir 2B.

Sjálfsmatsnefnd þakkar öllum þeim sem tóku þátt í áfangamatinu kærlega fyrir hjálpina.