Í vikunni hafa þrjár grænlenskar stúlkur, Malu Rosing, Iluuna Heilmann og Aviaaja Isaksen, verið í heimsókn í skólanum. Þetta er liður í samskiptaverkefni við Menntaskólann í Nuuk en í vor fóru þrjár stúlkur, sem nú eru nemendur í 4. bekk, til Grænlands og dvöldu þar í nokkra daga og kynntust landi og þjóð. Þær hýsa nú gestina og eru þeim innan handar.

Í dag voru Iluuna, Malu og Aviaaja meðal annars í dönskutíma í 3. bekk þar sem þær kynntu sig og svöruðu spurningum íslensku nemendanna. Síðustu daga hafa þær einnig heimsótt Háskólann á Akureyri, skoðað söfn bæjarins og fengið útsýnisflug og munu kynnast landinu betur fram að brottför á mánudag.