Enn ein glæsileg árshátíð MA fór fram í Höllinni í gær. Sjálf höllin var veglega skreytt eftir Hollywood-þema og meira að segja settur upp bíósalur þar sem horfa mátti á Hollywoodmyndir - að vísu við óminn af harmónikkuspili, því í næsta rými voru dansaðir gömludansar af miklum móð, lengi og ítarlega.

Hátíðin hófst á því að fjórðubekkingar gengu í salinn prúðbúnir, stúlkurnar í þjóðbúningum, flestar á upphlut, og drengirnir að þessu sinni áberandi flestir í litríkum þjóðdansabúningum, eh hátíðarbúningurinn var einnig áberandi.

Í sal Hallarinnar var hlaðborð af kvöldverði og viðamikil dagskrá af tónlist, söng og dansi. Kór MA söng, Príma sýndi fjölmenn og metnaðarfull dansatriði, Leikfélag MA skyggndist inn á Kennarastofuna og þrjú myndbandafélög sýndu smáþáttasyrpur, allar með rappi í lokin, og þannig mætti lengi telja. Heiðursgestur var Valdimar Gunnarsson, sem nýlega lét af störfum menntaskólakennara, og flutti samkomunni ávarp. Egill Örn Richter flutti ávarp nemenda, Björn Kristinn Jónsson formaður skólafélagsins flutti ávarp formanns og Jón Már Héðinsson skólameistari ávarpaði nemendur og gesti í lok dagskrár. Utan um dagskrána hélt veislustjórinn, Daði Jónsson.

Á eftir dunaði dans, gömlu dansarnir eins og fyrr segir uppi á efri hæð en í aðalsalnum hóf Moses Hightower leikinn, Friðrik Dór tók við og að lokum Sturla Atlas og 101 Boys. Myndatökur af hópum og einstaklingum stóð langt fram á nótt og allir virtust skemmta sér hið allrabesta.

Nokkrar svipmyndir frá árshátíðinni, einkum af fjórðubekkingum við upphaf hátíðarinnar, eru hér á Facebooksíðu MA.