Í dag verður Menntaskólanum á Akureyri slitið við athöfn í Íþróttahöllinni. Höllin er opin frá klukkan 9.00 en atöfnin hefst klukkan 10.00 þegar stúdentsefnin ganga í salinn.

Auk ávarps og ræðu skólameistara, Jóns Más Héðinssonar, verða flutt ávörp og kveðjur frá afmælisárgöngum, en elstir í þeim hópi eru 70 ára stúdentar, vaskur hópur fólks sem er um nírætt.

Að brautskráningu nýstúdenta lokinni verða myndatökur á skólalóðinni, en opið hús verður í MA til klukkan 15.00. Þar er margt að sjá og skoða, til dæmis myndlistarsýning tveggja fyrrum nemenda MA sem nýverið luku prófi við fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri.

Í kvöld er svo hátíðarfagnaður nýstúdenta í Íþróttahöllinni með margvíslegum skemmtiatriðum þeirra sjálfra og dansiballi í lokin.

Í gærkvöld var mikil hátíð í höllinni og rúmlega 900 júbúlantar, gamir nemendur skólans, áttu þar góðar stundir saman. Flestir júbílantarnir hafa verið hér um slóðir frá því um helgi og farið í alls kyns ferðir og verið í margvíslegum endurkomufögnuði. Þetta eru gleðidagar.