MorfÍs liðið
MorfÍs liðið

Það verður ekki annað sagt en að nemendur MA hafi staðið sig með prýði í fjölbreytilegri keppni þessa helgina. Eins og sagt hefur verið frá unnu þeir Fjölbrautaskóla Suðurlands í Gettu betur í Sjónvarpinu á föstudag og komust þar með í undanúrslit.

Á laugardag var, sem einnig var frá sagt hér, forritunarkeppni framhaldsskóla á vegum HR og HA. Þar tóku nemendur skólans 2. og 5. sætið. Í liðinu sem hampar öðru sætinu voru Artli Fannar Franklín og Brynjar Ingimarsson, báðir í 4X. Ásamt þeim var í liðinu stúlka úr VMA, Gamithra Marga, sem er frá Eistlandi. Í fimmta sæti voru svo Friðfinnur Már Þrastarson í 1. bekk I, Hrafnkell Hreinsson og Magni Steinn Þorbjörnsson úr 2. bekk T.

Í kvöld lagði lið Menntaskólans á Akureyri lið Menntaskólans við Hamrahlíð að velli í MorfÍs. Þetta voru átta liða úrslit og Karólína Rós Ólafsdóttir var ræðumaður kvöldsins. MA mætir næst Flensborg í undanúrslitum 29. mars.

Menntaskólinn á Akureyri á því að þessu sinni lið í undanúrslitum bæði í Gettu betur og MorfÍs. Vel af sér vikið.

Myndin af MorfÍs-liðinu er tekin af Facebooksíðu skólafélagsins Hugins