Sagt frá jólunum
Sagt frá jólunum

Íslandskynning – kvöldvaka fyrir erlenda skiptinema í HA er nýlega afstaðin.

Nemendur á mála- og menningarbraut taka tvo skylduáfanga sem hafa mikla menningarlega tengingu, það eru áfangarnir Lönd og menning (MENN2LÖ04) annars vegar og Tungumál og miðlun (MENN2TU04) hins vegar. Fyrrnefndi áfanginn byggir á áfanga sem kenndur var á tungumálakjörsviði í gömlu námskránni og var gjarnan nefndur í almennu tali „Evrópuáfanginn.“ Eitt af verkefnum áfangans er að bjóða erlendum skiptinemum í HA á kvöldvöku þar sem okkar nemendur kynna íslenska siði og venjur.  Þetta er í rauninni tækifæri til að endurgjalda skiptinemunum þann greiða sem þeir gera okkur með því að koma til okkar fyrr á önninni á svokallað hraðastefnumót, sem reyndar er á engan hátt rómantískt heldur heimildaöflun fyrir nemendur okkar, fyrir verkefni þar sem þeir bera saman hin ólíkuEvrópulönd.

Fyrir kvöldvökuna þurfa nemendur að velta fyrir sér hvaða hefðir og venjur við höfum á Íslandi sem eru frábrugðnar því sem gerist annars staðar. Nemendur velja sér svo efni til að kynna og hafa kynningarnar verið afar fjölbreyttar. Til dæmis kynntu nemendur í gær íslenska þjóðbúninginn, lopa, íslensku jólasveinana, íslenska tónlist, pönnukökur, skyr, íslenskt nammi, páskaegg og málshætti og fleira. Erlendu gestirnir voru mjög þakklátir fyrir þessa kvöldstund. Þeir dvelja á Akureyri eina til tvær annir og finnst þetta frábært tækifæri til að kynnast menningu og hefðum á Íslandi, sem er einmitt það sem við viljum, að nemendur okkar læri um hin fjölmörgu Evrópulönd.