​Í tilefni þess að MA hátíðin, sem haldin er í Íþróttahöllinni þann 16. júní á aldarfjórðungsafmæli í ár, gefur skólinn út blaðið Júbilantinn. Fyrir tveimur árum síðan var reyndar opnuð vefsíða undir sama heiti en í ár er skrefið stigið lengra með útgáfu blaðs.

Blaðið er tileinkað öllum afmælisárgöngum skólans en þó er sjónum mest beint að 25 ára stúdentum. Frá árinu 1990 hafa þeir skipulagt og haldið utan um MA hátíðina sem mörg hundruð manns sækja á hverju ári.

Ritnefnd skipuðu Arnar Már Arngrímsson, Hildur Hauksdóttir, Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir og Valdimar Gunnarsson. Harpa Sveinsdóttir var fulltrúi 25 ára stúdenta en þeir leggja mikið efni til blaðsins.  Nokkrir úr hópi 25 ára stúdenta rifja upp minningar frá menntaskólaárunum og Orri Páll Ormarsson tekur viðtal við Jóhann Sigurjónsson fyrrverandi kennara og skólameistara og Kjartan Þorbjörnsson, Golli, leggur til myndir. Aðrar myndir eru flestar eftir Auðun Níelsson og Sverri Pál Erlendsson.

Jón Hlöðver Áskelsson tónskáld rifjar upp aðdragandann að MA hátíðinni en hann og samstúdentar hans voru frumkvöðlar að henni. Greinin eftir hann í fullri lengd birtist hér.

Blaðið verður afhent 25 ára stúdentum þegar þeir heimsækja skólann í tilefni tímamótanna og mun einnig liggja frammi í skólanum 15. - 17. júní og áhugasamir geta nælt sér í eintak.

Skólinn þakkar öllum þeim sem lögðu til efni og myndir í blaðið og aðstoðuðu við gerð þess á einn eða annan hátt.