Ungskáld 2016
Ungskáld 2016

Karólína Rós Ólafsdóttir í 4B varð hlutskörpust í samkeppninni Ungskáld að þessu sinni. Upplýst var um úrslitin í gær.

Þátttakan í samkeppninni vex frá ári til árs og innsend verk hafa aldrei verið fleiri en nú. Aðstandendur keppninnar eru Akureyrarstofa, Amtsbókasafnið, Húsið, Jónasarsetur að Hrauni í Öxnadal og ekki síst Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra. Skólar á svæðinu standa einnig að keppninni, Framhaldsskólinn á Húsavík, Hásólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn á Tröllaskaga og Verkmenntaskólinn á Akureyri.

Á haustdögum var boðið upp á ritsmiðju vegna keppninnar og þar leiðbeindi Atli Sigþórsson, Kött Grá Pje, þátttakendum um skapandi ritun. Slíkt var einnig gert í fyrra og þá kom Andri Snær Magnason og leiðbeindi.

Hulda Sif Hermannsdóttir hjá Akureyrastofu stýrði verðlaunaafhendingunni á Amtsbókasafninu í gær. Hún kynnti dómnefndina, Arnar Má Arngrímsson, sem flutti samkomunni ávarp, Atla Sigþórsson skáld og rithöfund, sem las úr nýrri bók sinni, Perurnar í íbúðinni minni, og Birnu Pétursdóttur leikstjóra og fjölmiðlakonu. Þá fluttu Hekla Liv Maríasdótttir og Tumi Hrannar-Pálmason tónlist.

Karólína Rós hreppti sem fyrr sagði fyrsta sætið. Í öðru sæti var Dagbjört Katrín Jónsdóttir, en hún varð stúdent frá MA 2013. Þriðja sætið hreppti svo Hanna Rún Hilmarsdóttir í 4A.

Kolbrún Ýrr Bjarnadóttir heldur utan um Ungskáld í MA og hún tók myndina sem hér fylgir. Á henni eru verðlaunahafarnir og dómnefndin: Dagbjört Katrín Jónsdóttir, Karólína Rós Ólafsdóttir, Hanna Rún Hilmarsdóttir, Arnar Már Arngrímsson, Birna Pétursdóttir og Atli Sigþórsson.