Afhending minningargjafar eftir Ara Brynjólfsson
Afhending minningargjafar eftir Ara Brynjólfsson

Menntaskólanum á Akureyri var um helgina færð 5.000 dollara peningagjöf í minningu Ara Brynjólfssonar, eðlisfræðings, sem lést í Bandaríkjunum í sumar. Það voru synir Ara og ekkja sem færðu skólanum þetta framlag að lokinni minningarathöfn í Lögmannshlíðarkirkju.  Fram kom í ávarpi Johns Brynjólfssonar, eins sona Ara, að  peningagjöf þessi væri hugsuð sem stuðningur við raungreina- og eðlisfræðikennslu í skólanum, en það var í Menntaskólanum á Akureyri sem áhugi Ara á þeim greinum kviknaði. Ari naut alþþjóðlegrar virðingar á sviði eðlisfræði og sagði sonur hans að vonandi mætti þetta framlag verða til þess að glæða áhuga og elju ungra menntskælinga til að hasla sér völl á sviði eðlisfræðinnar líkt og faðir hans hefði gert.

Ari BrynjólfssonAri Brynjólfsson ólst upp við Eyjafjörðinn, lengst af í Krossanesi og var einn sjö barna þeirra Brynjólfs Sigtryggssonar og Guðrúnar Rósinkarsdóttur. Hann fæddist 1926 og varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1948, fór til náms við Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan mag. scient. gráðu í eðlisfræði 1954. Ari vann fyrst að segulmælingum á bergi hér á landi, fór síðan til Þýskalands og starfaði við Háskólann i Göttingen en réðst svo til starfa í kjarnorkuvísindastöð Dana í Risör. Þar stjórnaði hann tilraunum á smíðum á „Cobolt- geislabyssu" sem einkum er notuð til að auka geymsluþol matvæla. Geislatæknin er einnig notuð til að dauðhreinsa búnað geimfara svo og tæki og áhöld á skurðstofum sjúkrahúsa. Ari varði doktorsritgerð sína frá Niels Bohr stofnuninni í Kaupmannahöfn árið 1973.

Ari starfaði víða um heim, m.a. hjá Sameinuðu þjóðunum í Vínarborg og Hollandi. Lungann úr starfsævi sinni starfaði hann á geislavísindastöð geimferðastofnunar Bandaríkjanna í Boston.

Jón Már Héðinsson skólameistari tók við gjöfinni við athöfnina í Lögmannshlíðarkirkju, en eins og fyrr segir er henni ætlað að efla kennslu í raungreinum og eðlisfræði við skólann. Á myndinni fyrir utan kirkjuna eru auk skólameistara synir Ara og ekkja, frá vinstri: Alan, Marguerite, John og Olaf. (mynd AB)