Á Sal
Á Sal

Þannig er málum háttað í MA að fyrsta atriðið í Dimissio er að fjórðubekkingar safnast saman á Sal í Gamla skóla og syngja af hjartans lyst. Þetta er reyndar eina skiptið sem þeir syngja á Sal því Söngsalur er löngu fluttur burt úr Gamla skóla, þar gætu aldrei rúmast 700 manns og þess vegna er sungið í Kvosinni. En síðasti Söngsalur er dálítið sterk hefð.

Að söngnum loknum koma fyrstubekkingar og bera fyrirmyndarbekki sína í gullstól úr Gamla skóla og í Hóla, en þar tekur við þrautabraut sem burtfararnemendur verða að rata, ýmist úti eða inni, og veðurs vegna nú bæði í Kvosnni og á flötinni að skólabaki. Því næst fara fjórðubekkingar í búninga, fá sér hádegishressingu, kveðja kennara og starfsfólk í skólanum og fara á heyvögnum um bæinn og kveðja kennara á heimavelli. Um kvöldið er svo veisla í Kvosinni með ávörpum og skemmtiatriðum.

Hér eru nokkrar svipmyndir af söngnum á Sal í morgun.