Skólastarfið er smátt og smátt að mjakast í gang eftir sumarleyfi. Kennarar koma til vinnu og undirbúa kennslu og ganga frá námsáætlunum og í næstu viku hefjast fundahöld og ýmiss konar hópastarf. Húsþing allra starfsmanna verður á þriðjudagsmorgun og síðar þann dag og á miðvikudag eru samvinnudagar og fagfundir kennara. Á miðvikudag eru jafnframt fundir með umsjónarkennurum í 1. og 2. bekk.

Skólinn verður settur fimmtudaginn 31. ágúst klukkan 9.30 á Sal skólans á Hólum. Þar eru nemendur allir velkomnir og sérstaklega nýnemar, foreldrar þeirra og forráðamenn. Fyrir þá verður kynning á starfi skólans fram undir hádegi, þeir hitta jafnframt umsjónarkennara barna sinna og einnig verður haldinn aðalfundur ForMA, Foreldrafélags MA. Strax að lokinni skólasetningu hitta nýnemarnir umsjónarkennara sína. Þeir koma aftur í skólann klukkan 13.00 og hitta starfsfólk og fá aðgang að tölvukerfi skólans.

Föstudaginn 1. september verður sérstök móttaka og kynnisferð fyrir alla nýnema. Nemendur 2. og 3. bekkjar koma þá í kennslu samkvæmt stundaskrá. Nýnemar koma loks til náms mánudaginn 4. september. Fjórðubekkingar verða fjarri góðu gamni fyrstu dagana, en þá verða þeir ásamt fjórum kennurum í ferð í Króatíu. Þeir koma í skólann fimmtudaginn 7. september.

Stundaskrár eru tilbúnar og komnar á INNU. Nýnemar geta sótt um aðgang að INNU https://www.inna.is/Nemendur/ og séð þar stundaskrárnar og bókalistana. Ef gera þarf athugasemdir við stundaskrár skulu nemendur hafa samband við brautarstjórana, Ölmu Oddgeirsdóttur eða Valdísi Björk Þorsteinsdóttur.