Menntaskólanum á Akureyri verður slitið með athöfn í Íþróttahöllinni á Akureyri þriðjudaginn 17. júní. Athöfnin hefst klukkan 10, en hús stendur opið frá klukkan 9.

Að þessu sinni verða brautskráðir 179 stúdentar, en þetta er í fyrsta sinn sem brautskráðir eru nemendur sem hafa stundað nám samkvæmt nýrri námskrá MA.

Að vanda munu tónlistarmenn úr röðum nemenda leika við athöfnina, skólameistari flytur skólaslitaræðu og brautskráir stúdenta, fulltrúar afmælisárganga, 10 ára, 25 ára, 40, 50, og 60 ára stúdenta flytja ávörp og kveðjur og fulltrúi nýstúdenta ávarpar samkomuna.

Þess verður minnst við athöfnina að út er komin bókin Lifandi húsið í samantekt Tryggva Gíslasonar fyrrum skólameistara en þessa dagana eru 110 ár liðin síðan farið var að reisa hið fornfræga hús Gamla skóla.

Að athöfn lokinni verða myndatökur, en þá er líka opið hús í MA til klukkan 15 síðdelgis. Þar gefst gestum og gangandi færi á að skoða skólahúsin, rifja upp gömul kynni, skoða námsverkefni nemenda og svala sér á kaffi og kökum.

Á Hólagangi, milli Hóla og Gamla skóla, verða sýnd nokkur verk eftir ungan listamann, James Earl. James varð stúdent frá MA 2011 og hefur síðan verið við nám við Myndlistaskólann á Akureyri og lýkur prófi þar á næsta vori. Teikningar hans og málverk hafa vakið mikla athygli.

Að kvöldi 17. júní er hátíðarsamkoma nýstúdenta í Íþróttahöllinni þar sem þeir koma með fjölskyldum sínum og vinum til borðhalds og þar munu stúdentarnir einnig flytja ýmis skemmtiatriði. Stúdentarnir fara að því loknu í bæinn og dansa á Torginu um klukkan 11.30, en nýstúdentaball er síðan í Höllinni fram eftir nóttu við undirleik hljómsveitarinnar Í svörtum fötum.

Gamlir nemendur koma hundruðum saman til Akureyrar til að fagna stúdentsafmælum sem standa á heilum tug og hálfum og setja svp á bæjarlífið dagana 14., 15. og 16. júní. Þeir fara gjarnan í dagsferðir um nágrennið og halda alls kyns fagnaði vítt og breitt um bæinn og sameinast svo á MA-hátíðinni í Íþróttahöllinni að kvöldi 16. júní. Þar verður borðhald og margvísleg skemmtidagskrá árganganna og Í svörtum fötum spilar fyrir dansi fram á nótt.