Irma Ösk Jónsdóttir, áttaþúsundasti stúdent MA
Irma Ösk Jónsdóttir, áttaþúsundasti stúdent MA

Menntaskólanum á Akureyri var í gær slitið í 136. sinn. Brautskráðir voru 153 nýstúdentar, meðal annars áttaþúsundasti stúdentinn.

Í upphafi lék Sigrún Mary McCormick nýstúdent á víólu og síðar lék Kamilla Dóra Jónsdóttir nýstúdent á flautu ásamt Unu Haraldsdóttur.

Margir nemendur hlutu verðlaun og viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í námi og starfi í skólanum. Dux skólans, með hæsta stúdentsprófseinkunn, 9,6, var Snæþór Aðalsteinsson frá Víkingavatni, en hann hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í eðlisfræði, efnafræði, vist- og umhverfisfræði og raungreinaverðlaun Háskólans í Reykjavík. Semidux var Eir Andradóttir frá Akureyri með 9,52, en hún hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði og líffræði. Stúdentsprófseinunn í MA er meðaltal allra einkunna nemandans öll fjögur skólaárin, svo hér hefur hvergi verið slegið slöku við.

Fulltrúar afmælisstúdenta sem fluttu ávörp voru: Eysteinn Tryggvason (70), Sigríður Guðmundsdóttir (60), Höskuldur Þráinsson (50), Þórður Þórkelsson (40), Auður H. Ingólfsdóttir (25), en hún tilkynnti jafnframt úthlutanir úr Uglusjóði, hollvinasjóði MA, og fulltrúi 10 ára stúcenta var Sigurður Helgi Oddsson. Fjölnir Brynjarsson fráfarandi formaður Hugins flutti ávarp nýstúdenta.

Fjölmargar myndir frá löngum hátíðardegi nýstúdenta eru á Facebooksíðu MA.

Myndirnar eru líka á myndasafni hér á ma.is.

Úr ræðu skólameistara

Í upphafi lagði Jón Már Héðinsson skólameistari áherslu á að skólinn hefði ævinlega haft velferð nemenda í forgrunni. Í skólasýninni væri kveðið á um að þroska víðsýni nemenda, gagnrýna hugsun, jafnréttisvitund og samfélaglega ábyrgð. Þá sé áhersla lögð á að nemandi beri virðingu fyrir sjálfum sér og umhverfinu, leggi sig fram með frumleika og sköpun að leiðarljósi og leggi rækt við náttúru- og menningarlæsi í víðum skilningi. Hann hvatti stúdenta til að rækta þetta með sér hér eftir sem hingað til. Skólameistari ítrekaði að skólinn væri skapandi lærdómsstofnun og markmið hans að mennta nemendur sem sjálfstæða borgara með sterka siðferðisvitund.

Skólameistari greindi frá því að frá og með komandi hausti yrðu nemendur innritaðir samkvæmt nýrri námskrá í þriggja ára nám, en MA hefði ákveðið að fara sína eigin leið að því marki og hafa námslokin sveigjanleg. Nemendur ættu því kost á að stjórna námsálagi sínu, en skólinn hygðist bjóða upp á ýmsar leiðir til að jafna álagið eða jafnvel hraða námi enn frekar. Þó að miklum tíma sé varið í form og skipulag við gerð námskrár ætli skólinn að vera trúr skólasýn sinni og leggja meginorkuna í innra starf, nám og kennslu. Framundan sé að finna leiðir til námsmats og það verði gert með samtali við alla hlutaðeigendur, jafnt heimili sem skóla.

Jón Már minntist á vanda sem steðjar að famhaldsskólanemum, kvíða og vanlíðan og mikilvægi þess að hjálpa þeim sem þurfa. Í ljósi þess og einnig hins, að vandasamt er að standa frammi fyrir miklu vali, hefði nú verið ráðinn skólasálfræðingur. Á hinn bóginn skipti verulegu máli jákvæð endurgjöf kennara og ekki síst bekkjarandinn. Það sé nemendum ljóst og síðasta vetur hefðu þeir farið af stað með verkefni til að efla andann. Mikilvægt sé að bekkurinn komi til hjálpar ef bekkjarfélagi eigi um sárt að binda. Í hraða nútímans og tækninnar standi kennarinn líka frammi fyrir því að nýta breytingar, prófa nýjar leiðir og vera skapandi í lausnum.

Skólameistari minntist á langtíma rekstrarvanda framhaldsskólanna og áralangan niðurskurð og hét á menntamálaráðherra að standa við þau orð að fé sem sparist við styttingu framhaldsskólanna um eitt ár verði varið til að bæta fjárhagsstöðu þeirra á ný. Hann vék einnig að samstarfi framhaldsskóla á Norðausturlandi, sem hefði í för með sér að skólaár í MA færðist fram og hæfist um mánaðamót ágúst-september. Þetta hefði átt að gerast í haust en hefði verið frestað vegna þess að ekki hefði fengist fé til að kosta tilfærsluna.

Meistari vék næst að starfsliði skólans og þakkaði því metnaðarfullt og gott starf.  Hann gat þess að Hildur Hauksdóttir enskukennari hefði eftir könnun Menntavísindasviðs Háskóla Íslands verið útnefnd framúrskarandi kennari. Hún hefði einnig gefið út á bók sögu ömmu sinnar. Annar enskukennari, Vilhjálmur Bergmann Bragason hefði meðal annars tekið þátt í að semja og flytja magnað leikverk. Þá hefði Arnar Már Arngrímsson íslenskukennari gefið út Sölvasögu unglings. Á þessu mætti sjá að sköpunarkraftur væri líka í kennaraliðinu.

Nokkrar breytingar verða á kennaraliði skólans. Skólameistari gat þess að Stefán G. Jónsson hefði látið af störfum um áramót, en hann kenndi aðallega eðlisfræði, vann að stjórnunarstörfum og var við skólann 17 ár með nokkrum hléum. Níels Karlsson stærðfræðikennari myndi láta af störfum í haust eftir 37 ára starf, en hann hefði átt þátt í að gefa út flokk stærðfræðibóka og auk þess hlotið viðurkenningu fyrir framlag sitt til stærðfræðikennslu. Níels var fjarri vegna afmælis bróður síns. Grétar G. Ingvarsson hætti einnig um síðustu áramót, en hann hefur í 35 ár kennt öðrum mönnum fleiri greinar við skólann. Öllum þessum þakkaði meistari störf sín.

Félagslíf nemenda varð skólameistara efni til nokkurrar umræðu. Hann kvað þátttöku í félagsstarfi mikilvæga, verklega þjálfun í grunnþáttum menntunar og nemendum væri treyst fyrir þessu starfi. Áhuginn væri afar mikill, sem sæist meðal annars á því að 50 manns hefðu boðið sig fram til helstu stjórna í félagsstarfinu og kosningaþátttaka hefði verið 90%. Það sýndi líka mikinn áhuga að 400 nemendur kæmu á atburð á kvöldi í miðri viku. Þessi mikilvægi þáttur mætti ekki skerðast í nýjum og styttri skóla, öflugur skóli þrifist ekki nema með blómlegu félagslífi.

Meistari nefndi nokkur atriði úr félagslífinu: Árshátíð MA sem er ævinlega áfengis- og vímulaus, og nemendur æfa sig í gömlu dönsunum í íþróttatímum til að geta stigið polka, vals og ræl á hátíðinni, LMA hefði sýnt Konung ljónanna margoft fyrir troðfullu húsi, líka í Reykjavík, myndarlegur Muninn hafi komið út tvisvar á árinu, Huginn hefði staðið fyrir glæsilegri söngkeppni, mörgum kvöldvökum, fræðslufundum svo og söngsal af og til. Við þetta megi bæta að Morfís- og Gettu betur-lið skólans hafi staðið sig vel. Allt þetta starf ár eftir ár eigi sinn þátt í því að endurfundir MA-stúdenta séu engu líkir og hundruð gamalla nemenda komi hingað á hverju ári til samfunda og til að rifja upp allt þetta sem gerðist þegar þeir voru í skólanum.

Þessu til viðbótar nefndi Jón Már að skólinn ætti fulltrúa í ólympíuliði í stærðfræði og eðlisfræði, nemendur MA hafi unnið forritunarkeppni framhaldsskólanna og líka Boxið, sem sýnt var í sjónvarpi, staðið sig vel í ungskáldakeppni, þýskuþraut, keppni í enskum smásögum, og þrír nemendur í 1. bekk hefðu unnið til Ameríkuferðar á vegum Oddfellowreglunnar. Nemendur hafi tekið þátt í samfélagsverkefnum, fyrstubekkingar unnið ásamt fjórðubekkingum að hreinsun á strandlengjunni við Akureyri og í Kjarnaskógi og lífsleikninemendur meðal annars boðið eldri borgurum upp á tölvukennslu. Og allt þetta sé bara brot af félagsstarfnu.

Í kveðjuorðum til nýstúdenta fjallaði skólameistari um vandann að kveðja. Hann þakkaði nemendum einnig þátttöku þeirra í breytingaferli skólans. Síðan hvatti hann þá til að halda einkunnarorð skólans, virðingu, víðsýni og árangur. Nú væru þeir tilbúnir að takast á við lífið og háskólanámið – en hamingjan fengist ekki keypt, hún kæmi þegar stritað væri að því litla fyrir það mikla. Hann óskaði þeim að lokum til hamingju og öllum aðstandendum þeirra.