Skólastarf hefur farið ágætlega af stað að loknu verkfalli. Ekki hefur orðið vart við að nemendur hyggist snúa frá námi.

Skólastarf hófst á mánudagsmorgun með því að skólameistari kallaði nemendur á Sal í Kvosinni og þar var þétt setinn bekkurinn. Jón Már bauð nemendur og starfsmenn velkomna til starfa og hvatti þá til að nýta vel þann tíma sem eftir væri af önninni. Hann sagði jafnframt frá hugmyndum um 5 daga uppbót á kennslutíma, þar sem stefnt væri að því að kenna þriðjudag að loknum páskum og sumardaginn fyrsta auk þess sem fyrstu þrír dagar sem ætlaðir hefðu verið til prófs yrðu kennsludagar. Sú tillaga var samþykkt á kennarafundi í gær.

Skólameistari sagði jafnframt frá því að á fundi sem hann hefði átt með stjórn skólafélagsins hefði orðið sátt um að haga félagslífinu þannig að það hefði sem minnst áhrif á kennslustíma.

Nemendur hafa mætt vel í skólann þessa daga frá því skólastarf hófst að nýju og nú er framundan frí í dymbilviku og um páska. Nemendur eru hvattir til að nýta þann tíma eftir föngum, ekki síst ef þeir hafa á bakinu óunnin eða ófrágengin verkefni.

Skólinn óskar öllum velferðar í páskaleyfi og góðrar heimkomu þeim sem burt fara. Og skólastarf hefst á ný að þessu sinni samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 22. april.