Menntaskólinn á Akureyri var settur í morgun í 135. sinn. Nemendur á skrá eru alls 745, 230 fyrsta bekk, 275 í 2. bekk, 180 í 3. bekk og 160 í 4. bekk.

skólameistari sagði frá námskrá MA, sem væri metnaðarfull og í sífelldri endurskoðun og takmarkið væri alltaf að gera betur. Námskráin væri nemendamiðuð og áhersla lögð á að nemandinn bæri ábyrgð á námi sínu og framvindu þess. Skólinn stefndi að því að auka sveigjanleika í námi en jafnframt að rækta með nemendum jákvætt viðhorf til viðfangsefnanna og efla seiglu þeirra.

Skólameistari ræddi um þá neikvæðu umræðu um skólamál sem væri í tísku hjá fjölmiðlum, sem slægju upp slíku í fyrirsögnum. Í skólanum væru kennarar sem kappkostuðu að taka á viðfangsefnum með jákvæðum hætti. Þannig hefðu þeir til dæmis um um árabil tekið á breytingum á lestrarfærni nemenda með því að auka áherslu á lestur með ýmsu móti, til dæmis með hraðlestrarnámskeiðum og yndislestri og í Íslandsáfanganum í 1. bekk væri mikil áhersla á lestur. Á sama hátt væri unnið að því að takast á við breyttan undirbúning nemenda í stærðfræði með jákvæðum hætti. Margt gott mætti lesa um stöðu stærðfræði í skólanum í skýrslu um stærðfræðikennslu í framhaldsskólum sem út kom í sumar.

Skólameistari vitnaði til orða menntamálaráðherra um að stytta nám í framhaldsskólum og miða við að það taki þrjú ár. Jón Már benti á mikilvægi þess að kanna og krefjast svara um það hvernig háskólar brygðust við því að taka við nemendum eftir þriggja ára framhaldsskólanám, en leiðir til að stytta námstíma væru margar. Árum saman hefðu nemendur getað komið inn í MA ári fyrr en venja er til, með ágætum árangri, og fleiri leiðir séu að því að auka sveigjanleika í námi, en mikilvægast sé, eins og komi fram í stærðfræðiskýrslunni, að framhaldsskólar brautskrái nemendur með stúdentspróf sem standi undir nafni. Stúdentspróf úr MA standi undir nafni, kannanir sýni að þeim vegni vel í háskólum hvar sem er.

Skólameistari beindi orðum sínum til nemenda, sagði að skólinn vildi fá áhugasama og metnaðarfulla nemendur sem sköpuðu orðspor skólans. Mikilvægast af öllu sé að ganga jákvæður til verka sinna. Skólinn geri miklar kröfur en nemendur eigi líka að gera kröfur, vera gagnrýnir og spyrja – og auk þess sé nauðsynlegt að koma undirbúinn í tíma. Nemendur þurfi sífellt að spyrja sig hvort þeir hafi gert eins vel og þeir geti. Vinnuaðstaða í skólanum sé góð, húsin opin til klukkan 10 á kvöldin virka daga og mikilvægt að nýta þá aðstöðu og temja sér að ljúka námi sínu í skólanum áður en farið er heim. En auk námsins sé félagslífið mikilvægur þáttur í skólalífinu, þjálfun í þátttöku í lífi og starfi, og megineinkennið sé að félagslífið sé áfengis- og vímuefnalaust.

Jón Már beindi orðum sínum að foreldrum og hlutverki þeirra að standa með börnum sínum á tímamótum í námi og einkalífi og varpa til dæmis ekki yfir á skólann, hvað þá nemendur fjórða bekkjar, að bera ábyrgð á uppeldi nýnemanna hvað varðar vímuefni og annað slíkt. Hann hvatti foreldra ennfremur til að taka virkan þátt í starfi FORMA, Foreldrafélags MA, og hafa samband við skólann hvenær sem upp kæmu spurningar varðandi hann.

Að lokinni skólasetningarræðu var gestum boðið upp á kaffiveitingar en síðan hófust kynningarfundir, fyrir nýnema jafnt sem foreldra. Fullyrða má að aldrei hafi jafnmargir foreldrar og forráðamenn fylgt nýnemum til fyrsta skóladags og var afar ánægjulegt að sjá þann stóra hóp saman kominn.

Í upphafi athafnar lék nýr konsertmeistari skólans, Fannar Rafn Gíslason á píanó, og í lokin léku og sungu tvö lög Freyja Steindórsdóttir og Tumi Hrannar Pálmason.