17. júní 2015
17. júní 2015

Skrifstofur skólans verða lokaðar frá 1. júlí til 10. ágúst. Unnið verður að margvíslegum endurbótum á húsum skólans í sumarleyfinu.

Mikið fjölmenni sótti skólann heim á hátíðunum í kringum brautskráninguna. Gestir á opnu húsi í MA 17. júní hafa aldrei verið fleiri. Fögnuður var mikill hjá júbílöntum og ekki síðri hjá nýstúdentum og fjölskyldum þeirra. Kennarar voru við störf 18. og 19. júní en þá hófst formlega sumarleyfi þeirra.

Á lokadeginum var lokakennarafundur skólaársins. Auk daglegs skólahalds, kennslu og prófa, hafa kennarar unnið að vinnumati, samkvæmt síðustu samningum, en í það hefur farið mikill tími og vinna utan kennsludaga. Lausleg athugun á vinnumatinu sýnir að kennarar leggja talsvert meiri tíma í störf sín en áður hafði verið talið og metið til launa. Til viðbótar við þetta hefur í vetur verið unnið að því að skipuleggja skólakerfi með sveigjanlegum námslokum, þar sem nemendum verði gefinn kostur á að velja að ljúka stúdentsprófi að lágmarki 210 einingar á þremur, þremur og hálfu eða fjórum árum. Þeim mun einnig gefast kostur á að velja sér einingafjölda og bæta við þessar lágmarkseiningar. Sérstök nefnd hefur unnið að þessu máli og haldnir hafa verið allmargir sérstakir fundir um þessa vinnu. Á lokakennarafundinum skilaði nefndin áfangaskýrslu og var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta að hún héldi áfram verki sínu.

Varla voru gestir á hátíðum skólans farnir á brott þegar dreif að iðnaðarmenn til að vinna að endurbótum á skólahúsunum. Í sumar verða loftin í göngum á efri hæð Gamla skóla málað og lagnir þar endurnýjaðar og sett ný loftljós. Miklar endurbætur verða á stofunum G11 og G12. Gangurinn við skrifstofu skólameistara verður færður til upprunalegs horfs og víða skipt um gler í gluggum til að þeir standist kröfur um brunavarnir. Á Möðruvöllum verður unnið að endurbótum á brunavörnum og lagfæringum á hurðum og á Hólum verður byrjað að skipta um gler. Þá verður haldið áfram að laga íþróttahúsið og stéttarnar milli þess og Gamla skóla.

Það er gaman að sjá að söguskiltið norðan við Gamla skóla hefur komið að miklum notum og fjöldi ferðalanga hefur stansað þar og skoðað á leiðum sínum að og frá Lystigarðinum.

Og nú er að njóta sumarsins sem kom loks um miðjan júní.