Hólmsteinn Snædal lagfærir panilinn
Hólmsteinn Snædal lagfærir panilinn

Sumarið er nýtt til að lagfæra eitt og annað í skólahúsunum. Í Gamla skóla er þessa dagana verið að lagfæra kennslustofurnar nyrst á Langa gangi, G11 og G12, eins og þær eru nefndar. Þá er einnig verið að vinna að lagfæringum á gluggum og loftið á göngum á efri hæð málað og eldgamlar lagnir og leiðslur fjarlægðar.

Á ganginum framan við Meistarastofu hefur gamla krossviðarklæðningin verið fjarlægð og þegar myndirnar voru teknar í gær var hagleikssmiðurinn Hólmsteinn Snædal að yfirfara og laga panilinn, sem þarna hefur verið í 110 ár, en afar lengi falinn að baki krossviðarins.

Margt kemur í ljós þegar farið er á bak við tjöldin. Þarna kemur til dæmis í ljós að hefur verið milliveggur á miðjum ganginum. Þegar að er gáð hefur syðri hluti gangsins verið í upphafi forstofa að skólameistaraíbúðinni. Í upphafi voru tvöföldu dyrnar að baki Hólmsteini útidyr, því Sólbyrgið, þar sem nú er skrifstofa skólameistara, var byggt talsvert síðar en húsið sjálft. Gengið hefur verið úr forstofunni inn í íbúðina um dyr sem sjást á myndinni, en hefur verið lokað með klæðningu löngu síðar. Löngu síðar, upp úr miðri síðustu öld, þegar kennurum hafði fjölgað mjög, var þar inni þiljuð af skrifstofa fyrir skólameistara, en fyrri skrifstofa hans sameinuð kennarstofunni. Við hlið þessara dyra hefur verið grunnur skápur, hálfinnfeldur í vegginn, en hann hefur verið rifinn þegar krossviðarklæðningin var sett upp.

Norðan milliveggjarins horfna eru svo dyrnar að núverandi Kennarastofu, en þær hafa verið leið meistara inn í skólann, en eftir að skólameistari flutti í nýja heimavist og ráðsmaður flutti í skólameistaraíbúðina var þarna afgreiðsla hans, meðal annars vegna mötuneytis og heimavistar. Handan gangsins er svo Meistarastofa, eins og hún er nú kölluð, hin gamla skrifstofa skólameistara, en hún var síðar sameinuð kennarastofunni, eins og fyrr var sagt, en er nú funda- og móttökustofa skólans.

Að lagfæringum loknum verður gangurinn málaður og þá kominn nær upprunalegu horfi en hann hefur verið í hálfa öld eða meira.

Hólmsteinn