Í Akureyrarkirkju. Mynd: Eyþór Ingi Jónsson
Í Akureyrarkirkju. Mynd: Eyþór Ingi Jónsson

Í MA er megináherslan á náminu og skólalífinu. Nemendur búa margir yfir ómetanlegum hæfileikum, sem ekki eru alltaf uppi á teningnum á reglulegum skóladegi. Jafnvel er ekki víst að bekkjarfélagar viti hvað aðrir aðhafast utan skólatíma. Fyrr á önninni birtum við svipmyndir af þremur nemendum. Í þetta sinn koma þrír til viðbótar. Við gætum kallað þáttinn: Pennar og píanó.

Pennar

Jórunn Rögnvaldsdóttir og Sonja Rún Magnúsdóttir eru báðar í fjórða bekk og þótt þær sitji hvor í sinni bekkjardeildinni eru þær samstíga, í raun sálufélagar, og það sem öðru fremur sameinar þær er að skrifa. Frá blautu barnsbeini hefur það verið ríkt í þeim að skrifa alls konar sögur, ljóð og aðra texta. Árin í Menntaskólanum hefur þessi ritþrá tekið breytingum og þróast og aukist.

JórunnJórunn segist hafa skrifað eins lengi og hún muni eftir sér, en eftir að hún kom í MA hafi hún áttað sig á því hvað skrifin skiptu hana miklu máli og nýtt umhverfi með nýju fólki hafi hleypt í hana nýju blóði. Hún eigi ótrúlega mikið og margs konar efni í bókum og tölvu eftir þessi 4 ár. Aðeins brot af því hafi komið fyrir augu annarra.

 

 

 

 

 

Sonja RúnSonja Rún segist hafa skrifað frá því hún lærði stafrófið. Þegar hún var 9 ára hafi hún samið smásögu upp á heilar 5 vélritaðar síður og í 6. og 7. bekk hafi hún samið 220 blaðsíðna skáldsögu. Hún hafi fengið verðlaun og viðurkenningar fyrir ritun í grunnskóla og það hafi haldið áfram þegar hún kom í menningalæsið í MA.

Báðar sóttu þær Jórunn og Sonja um að komast á námskeið í Rithöfundaskólanum á Biskops Arnö og þangað fóru þær vorið 2014, dvöldust þar í viku, kynntust fólki og lærðu margt. Eftir þessa reynslu stofnuðu þær RitMA, félag rithöfunda í MA, haustið 2014. Það er afar virkt félag sem heldur fundi tvisvar í viku. Þar bera félagarnir, sem eru töluverður hópur stráka og stelpna, saman bækur sínar og fjölmargir rithöfundar og gestir hafa komið á fundina og frætt félagana og spjallað við þá. RitMA hefur auk þess tvívegis á þessum tveimur starfsárum gefið út blað með sögum og ljóðum. Magnum Opus heitir það og hefur verið veggblað á Bókasafni MA og auk þess selt þeim sem hafa viljað eignast.

Leiðir Jórunnar og Sonju hafa legið saman víðar. Þær hafa líka skrifað á ensku og tekið þátt í enskri smásagnakeppni. Það er Félag enskukennara á Íslandi, FEKÍ, sem stendur fyrir keppninni. Þær hlutu báðar viðurkenningu innan skólans fyrir sögur sínar þegar þær voru í 3. bekk. Í 4. bekk endurtóku þær leikinn, en náðu lengra, því Sonja hlaut 2. verðlaun í enskusagnakeppninni á landsvísu og Jórunn 3. verðlaun. Þær voru staddar í Reykjavík þegar verðlaunin voru afhent og nutu þess ríkulega að vera þar innan um unga rithöfunda víðar af á landinu.

Gaman verður að sjá hvort þessir efnilegu rithöfundar halda áfram á sinni braut og hver veit nema við sjáum Jórunni eða Sonju Rún – eða jafnvel báðar – á metsölulistum í jólabókaflóðinu í náinni framtíð.

Píanó

AlexanderAlexander Smári Edelstein er í 2. bekk. Auk þess að vera í MA er hann í fullu námi við Tónlistarskólann á Akureyri, upprennandi píanóleikari sem hefur unnið til verðlauna fyrir leik sinn og haldið nokkra einleikstónleika, svo eitthvað sé talið.

Alexander segist ekki hafa byrjað að læra á píanó fyrr en hann var 11 ára og í fullu píanónámi hefur hann verið síðan hann var 12 ára, hafði áður lært á selló og gítar. Píanókennari hans hér á Akureyri hefur frá upphafi verið Þórarinn Stefánsson, en hann sækir einnig af og til tíma hjá Peter Maté í Reykjavík.

Frá bernsku segir Alexander að hann og Sólon tvíburabróðir hans hafi verið algerir brettagaurar, bæði á hjólabrettum og snjóbrettum, en þegar ljóst var að orðið hann stefndi að því að verða píanóleikari hafi hann hætt á hjólabrettinu til að vernda hendurnar, sem þurfa að vera heilar við slaghörpuna. Hann fer þó enn á snjóbretti (varlega) en segir hins vegar að bestu stundir þeirra bræðra séu við fluguveiðar í ám og vötnum.

Snemma varð ljóst að Alexander átti erindi við píanóið. Hann tók þátt í EPTA-keppninni árið 2012 og varð í 1. sæti í sínum flokki. Hann hreppti síðan 2. sætið í EPTA keppninni 2015 í flokki lengra kominna og hlaut sérstök verðlaun þar fyrir frumflutning á tónverki sem Anna Þorvaldsdóttir tónskáld samdi sérstaklega fyrir keppnina. Hann lék þetta verk síðar til flutnings í Ríkisútvarpinu.

Þegar Alexander var í 10. bekk lék hann fyrsta kafla í píanókonsert eftir Haydn með hljómsveit sem var blanda af þýskum og íslenskum tónlistarnemum. Sama ár hélt hann fyrstu einleikstónleika sína, í Hömrum í Hofi. Þegar hann var í 1. bekk í MA hélt hann aðra einleikstónleikana á kirkjulistavöku í Akureyrarkirkju og þriðju tónleikana hélt hann í Hömrum í Hofi snemma sumars 2015. Auk þess hefur hann leikið með öðrum, tók til dæmis þátt í Nótunni 2016 ásamt Helgu Maríu Guðmundsdóttur sellóleikara og leikur einnig með Kamillu Dóru Jónsdóttur á lokatónleikum hennar núna í maí.

Næst á dagskrá hjá Alexander er að taka þátt í Harpa International Music Academy í Reykjavík, sem fram er dagana 8.-17. júní næstkomandi. Þar mun hann njóta handleiðslu Peter Maté. Það er sem sagt nóg að gera hjá þeim sem eru í alvarlegu tónlistarnámi.

Á Youtube er hægt að heyra leik Alexanders, annars vegar Impromptu op. 90 no. 3 eftir Schubert og hins vegar Prelúdíú op. 3 no. 2 eftir Rachmaninoff - hvort tveggja upptökur frá síðasta sumri.