Framhaldsskólaeiningar: 5
Þrep: 3
Undanfari: FÉL2A05


Lýsing á efni áfangans:

Áfanginn er hluti af félagsfræðikjörsviði á tungumála- og félagsgreinasviði.  Meginefni áfangans er tvíþætt. Í fyrri hluta áfangans er heimur afbrota og frávika krufinn, fjallað um kenningar um frávik, tegundir afbrota og refsinga, áhrif kyns og stöðu á frávik, o.fl.  Áhersla er lögð á að nemendur tileinki sér gagnrýnið sjónarhorn, hvort sem kastljósið beinist að umfjöllun fjölmiðla um afbrot, opinberri tölfræði eða öðrum viðfangsefnum afbrotafræðinnar. Í síðari hluta áfangans velur kennari í samráði við nemendur annað viðfangsefni til þess að taka fyrir. Þetta viðfangsefni getur verið af margvíslegum toga, lagskipting, heilsufélagsfræði, þróunarlönd, fjölmiðlar o.s.frv., allt eftir áhuga nemenda og kennara.  Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur þjálfist enn frekar í heimildavinnu og öðlist grunnreynslu í eigindlegri rannsóknaraðferð.

Lokamarkmið áfangans:

Nemandi skal hafa aflað sér almennrar þekkingar og skilnings á:

  • helstu hugtökum afbrotafræðinnar, s.s. frávikum, stimplun og siðrofi
  • grundvallarsjónarhornum afbrotafræðinnar; samvirkni-, átaka- og samskiptakenningum
  • helstu tegundum frávika og afbrota
  • tegundum refsinga og tilgangi þeirra
  • hvernig kyn og félagsleg staða hefur áhrif á frávikshegðun og viðbrögð við frávikshegðun
  • eigindlegum rannsóknaraðferðum
  • a.m.k. einni íslenskri rannsókn á sviði afbrotafræðinnar
  • hugtökum og sjónarhornum sem tengjast völdu félagslegu viðfangsefni (misjafnt eftir önn hvert viðfangsefnið er)

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • afla sér traustra og trúverðugra upplýsinga um efni sem tengjast frávikum, greina þær og setja í samhengi
  • beita einni eigindlegri rannsóknaraðferð og miðla niðurstöðunum á greinargóðan hátt í ræðu og riti
  • beita helstu hugtökum afbrotafræðinnar á skýran og skilmerkilegan hátt
  • lýsa helstu tegundum frávika og refsinga
  • beita helstu kenningum afbrotafræðinnar
  • útskýra að hvaða leyti kyn og félagsleg staða mótar frávikshegðun fólks og viðbrögð annarra við frávikshegðun

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • tengja umfjöllun fjölmiðla um afbrot við afbrotafræðina, hugtök hennar og kenningar
  • meta upplýsingar um málefni tengd afbrotum og frávikum og nýta sér þær á skapandi hátt
  • tileinka sér gagnrýnið viðhorf gagnvart hvers konar umfjöllun um frávik
  • taka þátt í rökræðum um málefni afbrotafræðinnar
  • gera einfalda eigindlega rannsókn
  • tileinka sér víðsýni og umburðarlyndi gagnvart öðru fólki