Framhaldsskólaeiningar: 5
Þrep: 2
Undanfari: Enginn


Lýsing á efni áfangans

Í áfanganum verður fjallað um ferðamennsku ungs fólks, menningu, sögu, landafræði og náttúru Norðurlands og hvernig megi laða innlenda og erlenda ferðamenn hingað. Farið er í undirstöðuþætti miðlunar á ferðakynningarefni og unnið munnlega og skriflega að verkefnum á öllum þeim tungumálum sem nemandinn lærir í skólanum eða hefur önnur tök á. Unnið er með texta og myndir, í hópverkefnum og einstaklingsverkefnum og nemendur fara styttri vettvangsferðir og fá að spreyta sig við leiðsögn á heimaslóðum.

Lokamarkmið áfangans:

Nemandi skal hafa aflað sér almennrar þekkingar og skilnings á:

 • menningu og sögu þjóðarinnar og hvað af því getur laðað að erlenda ferðamenn, til dæmis sögustaði
 • landafræði og náttúru landshlutans og helstu náttúruvættum
 • aðferðum, tækjum og tólum til að búa til einfalt og árangursríkt kynningarefni
 • mikilvægi staðgóðrar tungumálakunnáttu, jafnt íslensku sem erlendum málum, og færni til að beita málum við munnlega og skriflega kynningu
 • undirstöðuatriðum í framsögn, framkomu og upplestri ritaðs máls og frágangi mynda og texta í bæklingum og kynningarefni
 • gildi þess að skrifa margvíslega texta, meðal annars útdrátt og endursögn á ólíkum tungumálum

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

 • flytja mál sitt frammi fyrir áheyrendum á þeim málum sem notuð eru við hvert verkefni
 • greina skilmerkilega frá því sem fyrir auga ber í kynnisferðum, einnig á mismunandi málum
 • útbúa kynningarefni með myndum og texta
 • beita mismunandi aðferðum eftir ólíkum hópum viðtekenda

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

 • segja með nákvæmni en áreynslulaust frá því helsta sem hrífa má ferðafólk
 • afla sér gagna á vefjum og bókum til að bæta kynningar sínar og kynningarefni
 • útbúa fjölbreytt ferðagögn

Námsmat:

Símat er verulegur hluti námsmatsins. Hvert verkefni um sig gildir sinn hluta einkunnar. Kennaramat kemur fram meðal annars í mati á vikulegum vinnuskýrslum og sýnilegri virkni og framlagi nemandans og jafningjamat gildir að hluta.