Framhaldsskólaeiningar: 13
Þrep: 2
Undanfari: Enginn


Lýsing á efni áfangans

Íslandsáfanginn - SAM (menningarlæsi) er áfangi á fyrsta ári. Honum er ætlað að auka áhuga, þekkingu og skilning nemenda á íslensku samfélagi, sögu þess og tungu. Í Íslandsáfanganum er höfuðáhersla lögð á að nemendur tileinki sér vönduð vinnubrögð við fjölbreytta verkefnavinnu. Verkefnin snúa fyrst og fremst að félagsfræði, íslensku og sögu, auk þess sem upplýsingatækni er samofin verkefnavinnunni. Nemendur þjálfast í að vinna með öðrum, þurfa að sýna frumkvæði og læra að bera ábyrgð á eigin námi. Sérstök áhersla er lögð á lestur og að nemendur þjálfist í að beita móðurmálinu, bæði í ræðu og riti. Áfanginn byggist að miklu leyti á verkefnavinnu í kennslustundum undir leiðsögn kennara. Námið fer fram utan skólans sem innan og sækja nemendur sér fróðleik og gögn á fjölbreytta vegu, m.a. í vettvangsferðum.

Lokamarkmið áfangans:

Nemandi skal hafa aflað sér almennrar þekkingar og skilnings á:

 • helstu grunnhugtökum félagsfræðinnar, s.s. gildum, viðmiðum, félagslegu taumhaldi og félagsmótun
 • sögu Menntaskólans á Akureyri og skólasögu Íslands í grófum dráttum
 • byggðaþróun og atvinnulífi í eigin heimabyggð
 • hvernig hægt er að hafa áhrif á eigið samfélag
 • ýmsum sögulegum og félagsfræðilegum viðfangsefnum sem eru að einhverju leyti mismunandi frá ári til árs

Nemandi skal hafa öðlast leikni í:

 • að koma fram fyrir aðra og tala máli sínu á skýran og greinargóðan hátt
 • að skrifa vandaðan texta samkvæmt reglum íslensks máls
 • að afla sér upplýsinga sem tengjast efni áfangans með viðeigandi aðferðum (geti nýtt sér bóksöfn, upplýsingar á vef, viðtöl, o.fl.)
 • heimildavinnu í samræmi við Hagnýt skrif (2003)
 • grunnþáttum myndvinnslu
 • vinna með öðrum

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni (hæfni) sem hann hefur aflað sér til að:

 • sýna hugkvæmni við lausn verkefna
 • sýna sjálfstæði í vinnubrögðum
 • sýna ábyrgð gagnvart náminu og skólanum
 • meta upplýsingar og vinna með þær á þann hátt að þær skili honum þekkingu og aukinni hæfni til náms, m.a. við ritun heimildaritgerða, kynninga og annarra verkefna
 • greina stöðu sína í því umhverfi sem hann lifir, bæði samfélaginu og sögulegu umhverfi.
 • skilja samspil nokkurra helstu þátta í gangverki íslensks samfélags

Námsmat:

Fjölbreytt verkefnavinna.