Framhaldsskólaeiningar: 5
Þrep: 3
Undanfari: ÍSM2A050


Lýsing á efni áfangans:

Í áfanganum er fjallað um íslenskt nútímamál í víðum skilningi. Beitt verður margvíslegum aðferðum þar sem nemendur kanna ólíka þætti tungumálsins og gera grein fyrir niðurstöðum sínum í ræðu, riti og með myndum á vefsíðu áfangans. Auk fyrirlestra kennara um efni og aðferðir verður leitast við að fá fyrirlesara til að fjalla um ólíka þætti nútímamáls og þróunar þess.

Lokamarkmið áfangans:

Nemandi skal hafa aflað sér almennrar þekkingar og skilnings á:

 • Stöðu íslensks nútímamáls í víðum skilningi.
 • Kostum og göllum þess að lítil þjóð eigi sér sérstakt tungumál.
 • Áhrifum erlendra tungumála á íslensku vegna tónlistar, tölvunotkunar, tölvuleikja, erlendra kvikmynda og sjónvarpsefnis o.s.frv.
 • Þróun tungumálsins og hvort það breytist svo að skapist kynslóðabil.
 • Mismunandi aðferðum til að endurnýja málið, meðal annars áhrif af slettum og tökuorðum
 • Mismunandi málsniði eftir stéttum, aldri, uppruna o.fl.
 • Stöðu nýbúa gagnvari íslensku og íslensku gagnvart þeim.
 • Áhrifum fjölmiðla á talað og ritað mál.
 • Áhrifum máls og málbreytinga á skapandi verk af ýmsu tagi

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

 • Kanna tungumálið og stöðu þess meðal notenda þess
 • Safna upplýsingum um íslenskt mál.
 • Vinna úr mismunandi upplýsingum og setja þær fram á skýran og greinargóðan hátt.
 • Gera grein fyrir niðurstöðum athugana sinna á sýnilegan og heyranlegan hátt.
 • Sýna færni í að skapa sjálfur texta eða annað efni og flytja í heyrenda hljóði og sýna eftir atvikum samkvæmt eðli ólíkrar miðlunar.

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

Fjalla um íslenskt mál sem miðlunarleið, breytileika þess eftir aðstæðum í stað og tíma og vera sér meðvitaður um að meðferð máls og þjálfun í málnotkun svo og víðsýni í mati og ályktunum er mikilvægt til að málið verði lifandi leið til allra samskipta og sköpunar.