Skólasetning og kynningarfundur 27. ágúst

Skólasetning verður haldin í Kvosinni (samkomusal skólans) þann 27. ágúst kl. 9:30. Kynningarfundur fyrir foreldra/forráðamenn nýnema verður haldinn í beinu framhaldi af skólasetningunni. Markmiðið með honum er að kynna námið í skólanum og margs konar starf sem ætlað er að styðja við nýnema á fyrsta ári. Nemendur þurfa þó ekki síst á stuðningi og hvatningu foreldra að halda og er það álit okkar að þann stuðning sé auðveldara að veita þegar nokkur þekking á skólanum og starfi hans er fyrir hendi.

Dagskrá verður fyrir nýnema frá kl. 13 til 16. Þar verður meðal annars kynning á skólanum og á tölvuumhverfi MA í Kvosinni. Nýnemar eru beðnir um að koma með tölvur sínar og tæki og þiggja aðstoð við að koma þeim í samband við net og skrá sig inn í hin mismunandi kerfi. Þannig verður einfaldara að hefja störf umsvifalaust að morgni 28. ágúst. Athugið að nýnemar verða að hafa meðferðis allar upplýsingar um notandanafn, netfang og lykilorð, sem þeir fá sendar frá tölvudeild fyrir skólabyrjun, til þess að þetta gangi greiðlega.

Almanak skólans er á vef okkar.

FORMA

Við skólann er starfandi foreldrafélagið FORMA. Aðalfundur foreldrafélagsins er haldinn í framhaldi af skólasetningu og þá er kosið í nýja stjórn. Stjórnin fundar reglulega yfir skólaárið og er Heimir Haraldsson náms- og starfsráðgjafi tengiliður skólans við félagið.

Skólinn og húsnæðið

Þjónusta

Afgreiðsla skólans er opin alla virka daga á skólatíma frá kl. 08:00-14:00 en lokað í kaffi- og matartímum, 09:40-10:00 og 12:00-12:30. Sími í afgreiðslu er 455 1555 og netfang skólans er ma@ma.is. Á vef MA og í Innu er hægt að sjá að morgni hvort kennsla fellur niður í einhverjum greinum þann dag.

Nemendur eru hvattir til að nýta sér bókasafn skólans, bæði safnkost, þjónustu og aðstöðu. Á bókasafninu er gott að sitja og læra á milli tíma eða eftir skóla. Þar eru tölvur sem hægt er að nýta sér, einnig er hægt að skanna og ljósrita. Bókasafnsfræðingar aðstoða nemendur við heimildaleitir og kynna nemendum safnið í upphafi annar.

Flestar kennslustofur standa nemendum líka opnar utan kennslustunda þar til að húsum skólans er lokað.

Umsjónarkennarar

Allir nemendur eiga sinn umsjónarkennara. Í fyrsta og öðrum bekk eru alla jafna tveir umsjónarkennarar um bekk en einn með eldri bekkina. Foreldrar eru hvattir til að hafa samband við umsjónarkennara til að fylgjast með námi barna sinna.

Læstir skápar

Fatahengi og skógeymslur eru ekki vöktuð en nemendur geta leigt læsta skápa í skólanum.

Lyklar fást í afgreiðslu. Skápagjaldið er 5000 kr. en 4000 kr. fást endurgreiddar þegar lyklinum er skilað.

Húsnæði skólans

Hús skólans eru þrjú og innangengt á milli þeirra. Þau ganga undir nöfnunum Gamli skóli (G á stundatöflu), Hólar (H á stundatöflu) og Möðruvellir (M á stundatöflu). Á vef skólans má sjá kort sem sýnir húsaskipan.

Mötuneyti

Nemendur sem ekki eru íbúar á heimavistinni geta nýtt sér mötuneyti heimavistarinnar. Hægt er að kaupa stakar máltíðir, 10 miða kort eða skrá sig í fast fæði í afgreiðslu skólans. Nánari upplýsingar er að finna á vef Heimavistar.

Nemendur reka litla sjoppu sem er opin í löngu frímínútum og í hádegishléi.

Athugið að ekki er leyfilegt að borða nesti í kennslustundum nema með leyfi kennara. Sérstakar umgengnisreglur gilda á bókasafni og í verklegum stofum.

Jöfnunarstyrkur

Nemendur sem þurfa að stunda nám fjarri heimahögum og fjölskyldu geta átt rétt á jöfnunarstyrk. Umsóknarfrestur á haustönn er til 15. október. Nemendur geta sótt um styrkinn í gegnum heimabankann sinn, INNU og island.is. Sjá einnig vef Lánasjóðs íslenskra námsmanna.  

Tölvur og upplýsingatækni

Í MA er mikil áhersla lögð á verkefnabundið og tölvustutt nám í ýmsum áföngum og því er mælst til þess að nýnemar hafi tiltækar fartölvur sem geta nýst við námið. Allir nemendur fá eigið MA-netfang (@ma.is) og er ætlast til að þeir skoði póstinn sinn mjög reglulega. Einnig skiptir sköpum að nemendur skrái sig inn í áfangana sína í kennsluumhverfi, Moodle eða OneNote, þar sem kennarar halda utan um námsefni og verkefni.

Netföng og aðgangsorð

Upplýsingar um netfang og aðgangsorð verða sendar nýnemum og forráðamönnum þeirra á netföngin sem skráð eru í Innu. Einnig fylgja upplýsingar um aðgang að þráðlausa netinu MA-nemendur. Nemendur verða að sjálfsögðu að halda vel utan um lykilorðin sín og deila þeim alls ekki með öðrum en forráðamönnum hugsanlega.

Hér skal aftur minnt á kynninguna á tölvuumhverfi MA sem haldin verður í Kvosinni kl. 13:00 þann 27. ágúst. Þá eru nýnemar hvattir til að koma með tölvur sínar og tæki og þiggja aðstoð við að koma þeim í samband við net og skrá sig inn í hin mismunandi kerfi. Þar með geta nemendur gengið beint til verka við upphaf skóla.

Inna

Innan er gagnagrunnur framhaldsskóla á Íslandi. Þangað sækja nemendur og forráðamenn ólögráða nemenda stundatöflur, mætingu, einkunnir og námsferil. Foreldrar nota Innu meðal annars ef þeir þurfa að tilkynna veikindi barna sinna.

Til að skrá sig í Innu þarf Íslykil eða rafræn skilríki. Einfaldast er að fá Íslykil sendan í heimabanka eða sækja rafræn skilríki, hjá símafélagi eða í viðskiptabanka. Áríðandi er að hafa með sér vegabréf eða ökuskírteini ef sækja á rafræn skilríki.
Athugið að ef skipt er um símafélag og/eða símakort þarf að virkja rafræn skilríki aftur.

Foreldrar geta líka haft sótt um aðgang að Innu á https://www.inna.is/Nemendur/ með því að panta nýtt lykilorð. Þá fá þeir sent lykilorð á það netfang sem er skráð í Innu.

Á vef MA er hægt að kynna sér ýmislegt tengt námskránni, námsferla, markmið o.s.frv.

Office365

Menntaskólinn á Akureyri hefur frá sumrinu 2013 notast við skýjaþjónustu hjá Microsoft sem kallast Office365. Í gegnum áskrift MA að þjónustum Microsoft fá nemendur fullan aðgang að Office365 vefviðmóti með tölvupósti, OneDrive for businessgagnaplássi, Skype for business samskiptakerfinu svo eitthvað sé nefnt. Að auki fá nemendur í MA rétt til að nota öll helstu forrit Office 2016 (t.d. Word, Excel og PowerPoint) og geta sett þau upp á öllum sínum tækjum.

Þetta fyrirkomulag gerir öll tölvusamskipti milli notenda tölvukerfisins mun einfaldari því nú geta allir deilt með sér skjölum og jafnvel unnið samtímis í þeim án þess að upp komi árekstrar. Skjalavinnsla gegnum snjalltæki er nú sömuleiðis orðin mjög þægileg. Þetta verður nánar kynnt fyrir nemendum í skólabyrjun.

Nemendur og forráðamenn fá á næstu dögum send notendanöfn og lykilorð að Office 365 og geta þá strax farið að koma sér fyrir í tölvukerfi skólans, sótt Office-pakkann inn á sínar tölvur o.s.frv.

Þráðlaust net

Í MA er öflugt þráðlaust net og gildir sama auðkenning fyrir það og Office 365. Hver nemandi ber fulla ábyrgð á þeirri netumferð sem fer fram í þeirra nafni.

Nemendur eru minntir á að þeim ber að tryggja það eftir bestu getu að fartölvur þeirra og tæki séu vel vírusvarin og smiti ekki út frá sér á neti skólans. Á þráðlausa netinu í MA njóta fartölvur forgangs og fá hraðara netsamband en snjalltæki eins og símar og spjaldtölvur. Nánari upplýsingar um tölvunotkun berast nemendum síðar í tölvupósti og á vef tölvudeildar og í reglum skólans um tölvunotkun.

Prentun

Nemendur greiða fyrir útprentun í MA og hafa aðgang að prenturum í öllum húsum skólans gegnum prentumsjónarkerfið Papercut á slóðinni http://prentun.ma.is. Þar skrá nemendur sig inn með notandanafni (það birtist í þeim hluta netfangsins sem er fyrir framan @ma.is) og lykilorði og hlaða upp PDF-útgáfu af verkefninu sínu. Ein blaðsíða úr svarthvítum prentara kostar 10 krónur en hver litasíða kostar 20 krónur. Athugið að ef prentað er báðu megin á blaðið telur það sem tvær síður.

Allir nemendur fá prentkvóta inn á notandareikning sinn í upphafi annar sem nemur 25 svarthvítum blöðum. Ef nemandi prentar út eitt blað í svörtu dregst eitt blað frá en ef sama blað er prentað gegnum litaprentara fara tvö blöð af kvótanum. Þegar kvótinn er búinn eða nægir ekki fyrir því sem prenta á þarf viðkomandi nemandi að fara í afgreiðslu skólans og kaupa sér inneign. Eftir lokun afgreiðslunnar er einnig hægt að kaupa prentkvóta á bókasafninu.

Náms- og kennsluumhverfi

Náms- og kennsluumhverfið Moodle er töluvert notað við nám og kennslu í MA. Slóðin er http://moodle.ma.is en einnig er tengill þangað af vef MA. Þar nálgast nemendur lesefni og verkefni og skila gjarnan verkefnum eða lausnum þangað inn líka. Innskráning fer fram með notandanafni (án@ma.is) og MA-lykilorði.

Reglur um tölvunotkun

Tölvur og snjalltæki geta verið mjög gagnleg við nám en reynslan er sú að notkun þeirra fylgir oft ónæði. Þetta á sérstaklega við um síma og önnur snjalltæki. Facebook og aðrir samskiptamiðlar, leikir, ómarkvisst flakk á netinu og annað þess háttar sem ekki tilheyrir náminu á ekki við í kennslustundum. Eftirfarandi reglur gilda um tölvu- og snjalltækjanotkun í MA:

 1. Einkunnarorð skólans, virðing, víðsýni, árangur, gilda í öllu starfi skólans, einnig í allri meðferð samskiptatækja.
 2. Kennarinn er verkstjóri og setur vinnureglur í kennslustundum.
 3. Nemendur virða rétt félaga sinna til að stunda nám sitt ótruflaðir.
 4. Tölvur, síma og önnur samskiptatæki má aðeins nota í kennslustundum ef kennari leyfir eða mælir svo fyrir.
 5. Allar myndatökur og upptökur í kennslustundum eru óheimilar nema með leyfi kennara.

Námið

Námsgreinar

Nemendur á fyrsta ári eru flestir í sömu námsgreinum á haustönn en gátu við innritun í skólann valið milli frönsku og þýsku. Munurinn á námsbrautum eykst strax á vorönn á fyrsta ári og síðan enn frekar á öðru ári.

Menningarlæsi og náttúrulæsi eru stórir samþættir áfangar og er þeim ætlað að skerpa sýn og auka skilning nemenda á landi sínu, þjóð og tungu. Í menningarlæsi fléttast saman nám í íslensku, félagsfræði og sögu en íslenska, líffræði, jarðfræði og landafræði fléttast saman í náttúrulæsinu. Upplýsingatækni er samofin allri verkefnavinnu með áherslu á samvinnu, frumkvæði og ábyrgð. Áfangarnir byggja að verulegu leyti á ferlivinnu í kennslustundum þar sem nemendur fá tækifæri til að vinna verkefni sín undir leiðsögn kennara.

Námsgögn

Hægt er að nálgast upplýsingar um bókalista á Innu og einnig á vef skólans. Mikilvægt er að útvega sér allt námsefni strax í upphafi annar.

Nemendur sem ekki hafa lært dönsku

Nemendur sem hafa lært norsku eða sænsku í grunnskóla geta haldið því áfram. Áfangarnir eru þó ekki kenndir í MA, heldur þarf að taka fjarnámsáfanga frá VMA. Aðstoðarskólameistari sér um skráningu í fjarnámið. Ef nemendur hafa ekki lært neitt Norðurlandamál í grunnskóla taka þeir einingar í öðru tungumáli í staðinn.

Kennsla í dönsku hefst ekki fyrr en á öðru eða þriðja ári.

Nemendur sem þurfa aðstoð í námi

Foreldrar eru hvattir til að hafa samband við umsjónarkennara eða námsráðgjafa í upphafi skólaárs ef nemendur þurfa sérstaka aðstoð, hvort sem er í námi eða öðru. Upplýsingar um slíkt eru ekki sendar sjálfkrafa milli skólastiga.

Tónlist

Nemendur sem stunda nám í tónlist geta fengið afnot af kennslustofum utan skólatíma til að æfa sig á hljóðfærin sín. Skólinn á einnig flygil sem nemendur geta notað. Á töflunni á Langa gangi í Gamla skóla er hengd upp stundatafla og þar geta nemendur skráð sig vilji þeir festa sér stofu til æfinga.

Nemendur sem stunda tónlistarnám geta fengið það metið sem val eða brautskrást af kjörnámsbraut í tónlist ef þeir eru komnir vel áleiðis í tónlistarnámi við upphaf menntaskólanáms. Varðandi frekari upplýsingar um tónlistarbraut er hægt að hafa samband við námsráðgjafa eða brautarstjóra.

Námsmat

Nemendur fá kennsluáætlanir í öllum áföngum (í Moodle) í upphafi annar. Þar kemur fram námsefni, lýsing á yfirferð efnis á önninni, verkefni og námsmat. Próf eru haldin í lok annar og gilda þau yfirleitt 50-80%. Allmörgum áföngum lýkur án sérstaks lokaprófs, einkum á seinni árunum. Töluvert er um verkefni og stutt próf á önninni og er nauðsynlegt fyrir nemendur að skoða kennsluáætlanir vel í upphafi til að geta skipulagt vinnu sína á önninni. Í flestum greinum er gert ráð fyrir heimanámi og reynslan sýnir að slíkt sjálfsnám gagnast nemendum vel.

Námsmatsdagar

Skólaárinu er skipt í tvær annir sem lýkur með námsmati eða prófum. Einnig eru svokallaðir námsmatsdagar inn á miðri önn. Þá er ekki hefðbundin kennsla samkvæmt stundatöflu en tóm gefið fyrir nemendur til að vinna að verkefnum. Dagarnir eru einnig nýttir til sjúkraprófa ef þarf eða verkefnaskila og kennarar geta kallað nemendur inn til viðtals eða nemendur leitað aðstoðar hjá þeim varðandi verkefni.

Miðannarmat

Um miðja haustönn fá nemendur í 1. og 2. bekk svokallað miðannarmat, en það er óformlegra mat en lokaprófin og byggir oft á öðrum þáttum, en á engu að síður að geta gefið foreldrum og nemendum vísbendingu um stöðu nemandans í náminu. Matið er gefið í bókstöfum, A, G, S, O. Það er einungis stöðumat en hefur ekki áhrif á lokaeinkunn í áfanganum.

Í framhaldi af miðannarmatinu taka umsjónarkennarar nemendur í viðtal og námsráðgjafar hafa samband við foreldra þeirra nemenda sem taldir eru standa höllum fæti í náminu.

Námstími, þrjú til fjögur ár

Þótt skólinn sé bekkjaskóli og náminu raðað niður á ár, er hægt að taka námið á mislöngum tíma. Það getur til dæmis verið góður kostur ef nemandi stundar íþróttir, er í tónlistarnámi eða tímafreku félagsstarfi. Vissulega er námið krefjandi en með góðri ástundun eiga allir nemendur Menntaskólans að geta náð góðum árangri. Nemendum og forráðamönnum þeirra er bent á að hafa samband við brautarstjóra ef þeir vilja kynna sér þennan möguleika.

Skóladagurinn

Skóladagurinn hefst kl. 8:15 og stendur til 16:05 nema á föstudögum en þá lýkur kennslu kl. 14:30.

Skólareglur Menntaskólans á Akureyri

Almennar skólareglur

Kennarar og nemendur ræki störf sín í skólanum af alúð og árvekni. 
Regla og agi skulu vera í skólanum til að friða um starf hans. 
Góð umgengni skal höfð í húsum skólans og á lóð hans.

Reglur um bindindi

Áfengi og önnur vímuefni

Nemendur skólans mega ekki vera undir áhrifum áfengis eða annarra vímuvaldandi efna í skólanum eða á lóð hans né heldur á skemmtunum, samkomum eða ferðalögum sem farin eru á vegum skólans eða í nafni hans. Sé áminningu skólameistara ekki sinnt er nemanda vikið úr skóla.

Tóbakslaus skóli

Menntaskólinn á Akureyri er tóbakslaus skóli. Óheimilt er að reykja eða nota annað tóbak, þar með talið munntóbak og neftóbak, í húsum skólans og á lóð hans.

Mikið er lagt upp úr því að allar skemmtanir á vegum skólans séu vímulausar, s.s. busaball og árshátíð.

Umgengni

Góð umgengni innan og utan skóla er einkenni nemenda Menntaskólans á Akureyri. Stofur í skólanum eru opnar nemendum eftir skólatíma og það hefur verið mögulegt vegna góðrar umgengni. Hægt er að nýta stofurnar og bókasafnið til lærdóms.

Hegðun í tímum

Lögð er áhersla á að nemendur og kennarar sýni hverjir öðrum virðingu og tryggi í sameiningu vinnufrið og góða ástundun. Neysla matvæla er ekki heimil í kennslustofum og notkun á tölvum er háð leyfi kennara. Ætlast er til að nemendur biðji um leyfi þurfi þeir nauðsynlega að fara fram meðan á kennslu stendur. Ástundun og vinnusemi í kennslustundum er forsenda góðs árangurs.

Reglur um skólasókn

Góð skólasókn er mikilvæg, ekki síst á fyrstu árunum í framhaldsskóla. Reynslan sýnir að það er sterk fylgni milli skólasóknar og námsárangurs í 1. bekk. Öll kennsla og skipulag skólans miðast við að nemendur sæki alla tíma, þannig skapast sterkara námssamfélag og hvetjandi vinnuumhverfi.

Mæting nemenda er skráð í Innu og er aðgengileg nemendum og forráðamönnum ólögráða barna. Inna sýnir annars vegar raunmætingu nemandans, það er hvaða tíma hann hefur sótt og hins vegar mætingu þegar veikindi hafa verið dregin frá.

Leyfi frá skóla

Gert er ráð fyrir að nemendur sem þurfa að sinna erindum utan skóla reyni eftir föngum að gera það utan skólatíma.

Lögráða nemendur og forráðamenn ólögráða nemenda geta sótt um leyfi til skólameistara eða aðstoðarskólameistara ef þeir þurfa að vera í burtu dag eða lengur. Nemendur fá skráðar fjarvistir þá daga sem þeir er í leyfi en með skýringum. Ef nemendur þurfa að sækja um leyfi í 3 daga eða lengur, þurfa þeir að skila inn útfylltri leyfisumsókn.

Skilyrði fyrir leyfisveitingu: 

 • Nemandi mæti að öðru leyti vel í skólann 
 • Nemandi geri sér grein fyrir skyldum sínum og ábyrgð ef hann þarf að vera fjarverandi, meðal annars ræði við kennara fyrirfram ef leyfið lendir á verklegum tímum og verkefnaskilum. 

Fjarvera sem þessi er skráð sem Ú (útskýrð fjarvera) í INNU. 

Leyfi vegna íþrótta

Fjarvera afreksíþróttafólks á námstíma, vegna keppnis- og/eða æfingaferða landsliðs í viðkomandi íþróttagrein, reiknast ekki inn í skólasókn þeirra (afreksíþróttamaður telst sá sem valinn hefur verið í unglingalandslið eða landslið viðkomandi íþróttagreinar eða sá sem valinn hefur verið til þátttöku og/eða undirbúnings fyrir Norðurlandamót, Evrópumeistaramót, heimsmeistaramót eða Ólympíuleika i sinni íþróttagrein). Það sama gildir um nemendur sem eru í viðurkenndum ferðum á vegum skólans.
 Nemendur sem fara í keppnisferðir á vegum íþróttafélaga innan ÍSÍ geta fengið skráð leyfi fyrir sínum fjarvistum, ef þjálfarar skila inn leyfisbeiðni. Aðeins er hægt að taka tillit til þeirra leyfa ef nemandinn mætir vel að öðru leyti.

Þessar reglur gilda einnig um nemendur sem eru í viðamiklu tónlistarnámi og nemendur sem taka þátt í keppnum fyrir hönd skólans s.s. Morfís og Gettu betur.  

Leyfi vegna ofangreinda þátta eru skráð sem L (leyfi) í INNU.  

Veikindi

Foreldrar þurfa að skrá veikindi samdægurs (fyrir kl. 10) á Innu. Athugið að ekki dugir að nemandi tilkynni sjálfur veikindi. Einnig er mögulegt að senda póst á afgreidsla@ma.is.

Skólinn áskilur sér rétt til að krefjast þess að vottorði sé skilað, t.d. ef fjarvistir nemenda vegna veikinda eru miklar.

Nemendur sem eiga við sjúkdóma að stríða eða búa við aðstæður sem geta haft áhrif á skólasókn þeirra, leggja fram gögn um slíkt í upphafi annar, og/eða þegar slíkar aðstæður koma upp, hjá námsráðgjafa eða aðstoðarskólameistara. Hægt er að sækja um það að í slíkum tilvikum sé skólasóknar ekki getið á námsferli.

Veikindi í prófum

Ef ekki kemur annað fram á kennsluáætlunum þarf nemandi sem er veikur þegar verkefni eða prófhluti til lokaprófs er á dagskrá að skila læknisvottorði fyrir þann dag, eigi síðar en einni viku frá því að nemandinn kemur í skólann á ný. Alltaf þarf að skila inn vottorði vegna veikinda í próftíð til að eiga rétt á sjúkraprófi.

Símat og vinnueinkunn

Að jafnaði gilda sömu reglur um skólasókn í símatsáföngum og öðrum áföngum, en kennurum er heimilt að setja strangari skólasóknarreglur enda skiptir þátttaka og viðvera nemenda miklu í slíkum áföngum.

Sérstakar reglur gilda um vægi skólasóknar í einkunn fyrir íþróttir.

Ábyrgð nemenda

Nemendum ber sjálfum að fylgjast með skólasókn sinni í Innu. Ef nemandi þarf að vera mikið frá vegna íþrótta eða leyfa ber hann ábyrgð á því að fylgjast með hvað fram fer í kennslu á þeim tíma. Það sama á við um nemendur sem eru frá vegna skammvinnra veikinda. Nemendur sem glíma við samfelld eða erfið veikindi hafa samband við námsráðgjafa.

Heilsugæsluþjónusta

Engin heilsugæsla er í skólanum en vistarbúar geta leitað til hjúkrunarfræðings á heimavistinni sem er með viðtalstíma tvisvar í viku. Vakin er athygli á að vaktþjónusta heimilislækna Hafnarstræti 99, 6. hæð er opin alla virka daga frá kl 14-18 og 10-14 um helgar. Vaktþjónustan  er ætluð einstaklingum sem þarfnast læknishjálpar samdægurs vegna skyndiveikinda eða sambærilegra atvika. Ekki eru afgreidd vottorð á vakt og ekki eru gefnir út lyfseðlar á eftirritunarskyld lyf.

Dagatal

Á vef skólans má sjá dagatal skólans. Meðal viðburða á skólaárinu má nefna:

 • Nýnemamóttaka verður með ýmsum hætti fyrstu skólavikuna.
 • Nemendur fara í vettvangsferðir til Siglufjarðar (menningarlæsi) og Mývatnssveitar (náttúrulæsi).
 • Árshátíð nemenda og fullveldisfagnaður er 24. nóvember.
 • Námsmatsdagar verða 20. september, 16. október og 11. nóvember (sjá bls. 9).
 • Haustfrí er 17. – 18. október.
 • Námsmatstími hefst 12. desember og stendur fram að jólafríi þann 20. desember. Sjúkra- og endurtökupróf verða í janúar.
 • Vorönn hefst 13. janúar og þá fá nemendur nýja stundaskrá.
 • Námsmatsdagar á vorönn eru 4. febrúar og 11. mars.
 • Vorannarpróf hefjast 15. maí.

Félagslíf nemenda – skólafélagið Huginn

Menntaskólinn á Akureyri hefur ævinlega lagt ríka áherslu á gott og fjölbreytt félagslíf. Skólafélagið Huginn heldur utan um þann þátt félagsstarfsins. Nemendur greiddu félagsgjald til Hugins um leið og þeir greiddu innritunargjaldið í skólann en kjósi þeir að vera ekki félagar geta þeir fengið gjaldið endurgreitt í skólabyrjun hjá fjármálastjóra skólans.

Fjölmörg félög eru starfandi innan skólans undir hatti skólafélagsins. Þau stærstu og rótgrónustu eru íþróttafélagið (ÍMA), leikfélagið (LMA), dansfélagið (PRIMA), tónlistarfélagið (TÓMA), skólablaðið (Muninn) auk fjölda annarra. Nýnemum er kynnt félagslífið fljótlega eftir skólabyrjun.

Flestir nemendur safnast saman í Kvos Menntaskólans í löngufrímínútunum og þar eru viðburðir gjarnan auglýstir.

Nemendur leggja metnað sinn í að hafa allar skemmtanir sem eru haldnar í nafni skólafélagsins áfengis- og vímuefnalausar.

Menntaskólinn á Akureyri er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli líkt og flestir aðrir framhaldsskólar. Verkefnið er langtímaverkefni með áherslu á næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl.

Að lokum

Menntaskólinn á Akureyri er bóknámsskóli og meginhlutverk hans er að búa nemendur undir nám á háskólastigi, auk þess að búa þá undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi. Það eru alltaf ákveðin viðbrigði fyrir nemendur að hefja nám í menntaskóla þrátt fyrir að nemendahópurinn sé sterkur. Yfirferð er hraðari í ýmsum greinum en í grunnskóla og kröfur meiri um sjálfstæð vinnubrögð.

Nám í Menntaskólanum er full vinna og því brýnt að hvetja nemendur til að læra jafnt og þétt alla önnina og nýta kennslustundirnar vel. Þá er aðhald foreldra nemendum einnig mikilvægt. Góð vinnubrögð sem nemandi tileinkar sér strax á fyrstu önn nýtast honum alla skólagönguna.

Það er spennandi skólaár framundan og tímamótavetur, þar sem nú verða í fyrsta sinn þrír bekkir í stað fjögurra, og hvert ár því afar dýrmætt.

Hlökkum til að eiga samstarf við ykkur,

starfsfólk Menntaskólans á Akureyri