Menntaskólinn á Akureyri er bekkjaskóli. Nemendur fylgja námsferli viðkomandi námsbrautar og eru alla jafna í fullu námi. Ef nemandi kýs að nýta sér sveigjanleg námslok, þ.e. að lengja námstíma til stúdentsprófs um eina eða tvær annir, skal hann snúa sér til námsráðgjafa eða brautastjóra og skipuleggja námsferil sinn í samráði við þá. Alla jafna er miðað við að nemendur taki áfanga í kjarna og brautarkjarna í MA.

Nemendur sem staðist hafa kröfur um námsframvindu og reglur um skólasókn eru sjálfkrafa skráðir í skólann næsta skólaár og þurfa ekki að sækja sérstaklega um skólavist.

Til þess að útskrifast með stúdentspróf frá MA þarf nemandi að hafa lokið 200 einingum samkvæmt námsferli viðkomandi námsbrautar með tilskildum árangri. Þó er hægt að sækja um sérstaka undanþágu um að fá að útskrifast með fall í einum áfanga og skulu skriflegar umsóknir um það berast til aðstoðarskólameistara. Til þess að geta sótt um þetta þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði.

  • Nemandi verður að hafa fengið a.m.k. 2 í einkunn ef um stakan áfanga eða lokaáfanga námsgreinar er að ræða en verður að hafa fengið a.m.k. 3 í einkunn ef áfanginn á sér eftirfara í kjarna.
  • Nemandi sem fær að útskrifast með fall í einum áfanga þarf samt sem áður að hafa lokið 200 einingum.

Reglur um námsframvindu

Annaskipti

Ólögráða nemendur geta haldið áfram á vorönn þótt þeir falli í prófum á haustönn, hafi þeir fylgt skólareglum, m.a. um skólasókn. Lögráða nemendur þurfa að ljúka að lágmarki 15 einingum á haustönn til að halda áfram námi í sama bekk á vorönn.

Nemandi í fullu námi verður að ljúka að minnsta kosti 50 einingum á skólaári. Til að setjast í 2. bekk þarf nemandi að uppfylla kröfur um námsframvindu á 1. ári.

Uppvinningsregla

Svokölluð uppvinningsregla gildir í öllum áföngum sem eiga sér eftirfara, þ.e. ef nemandi fellur í áfanga á haustönn getur hann fengið áfangann metinn ef hann hækkar sig það mikið í sömu grein á vorönn að hann nái að meðaltali 5 í greininni. Athugið að þetta gildir ekki um endurtökuáfanga.

Um endurtöku og verkefnaskil í símatsáföngum

Í símatsáföngum er ekki hægt að þreyta eitt endurtökupróf fyrir allan áfangann. Ef nemandi fellur í símatsáfanga en hefur reynt við flest verkefni áfangans getur hann endurtekið sömu eða sambærileg verkefni sem ígildi endurtöku.

Kennurum er heimilt að setja sérstakar reglur um lágmarksskilaskyldu verkefna í símatsáföngum, þ.e. að skili nemandi ekki ákveðnu hlutfalli af verkefnum áfangans geti það þýtt að nemandinn falli í áfanganum. Reglur um skilaskyldu eiga að koma fram í námsáætlun viðkomandi áfanga.

Nemandi sem lýkur önninni fær lokaeinkunn úr áfanganum jafnvel þó hann hafi ekki lokið öllum námsmatsþáttum. Fall  í einstaka námsþáttum á önninni kemur ekki í veg fyrir að nemandi fái að taka lokapróf.

Fall í áföngum/endurtaka

Hægt er að endurtaka námsmat í allt að þremur áföngum yfir skólaárið. Nemendur greiða fyrir endurtöku. Ekki er allir áfangar þess eðlis að hægt sé að taka endurtökupróf í þeim.

Nemandi með fall/föll að lokinni endurtöku

Einhverjir skólar bjóða upp á fjarnám og ef þeir áfangar teljast sambærilegir/jafngildir áföngum í MA getur nemandi sótt um að fá slíka áfanga metna. Nauðsynlegt er að hafa samband við brautastjóra eða námsráðgjafa til að fá upplýsingar um hvort innihald áfanganna og þrep þeirra telst vera sambærilegt áföngum í MA.