Meðferð gagna

Gögn í vörslu skóla sem hafa að geyma persónulegar upplýsingar um nemendur skal farið með í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, laga um Þjóðskjalasafn Íslands og ákvæði upplýsingalaga eftir því sem við á. Starfsfólk í framhaldsskóla er bundið trúnaði og óheimilt er að veita persónulegar upplýsingar um lögráða nemanda án samþykkis hans eða forsjárforeldra/forráðamanna ef um er að ræða nemanda yngri en 18 ára.

Menntaskólinn á Akureyri varðveitir upplýsingar um nám nemenda sinna og veitir þeim aðgang að þeim upplýsingum. Forsjárforeldrar og forráðamenn ólögráða barna hafa aðgang að upplýsingakerfi þar sem meðal annars eru birtar einkunnir og upplýsingar um skólasókn. Þegar nemandi hefur náð lögræðisaldri er einungis heimilt að veita honum sjálfum, eða þeim sem nemandinn veitir skriflegt umboð, upplýsingar um mál er varða hann persónulega.

Skólanum er þó heimilt að veita öðrum skólum upplýsingar um einstaka nemendur vegna flutnings þeirra milli skóla eða vegna þess að þeir stunda nám við fleiri en einn skóla eða fræðslustofnun. Einnig er heimilt að veita fræðsluyfirvöldum slíkar upplýsingar í skýrt afmörkuðum tilgangi. Sé um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða skulu þær þó ekki afhentar nema með upplýstu samþykki forsjárforeldra eða lögráða nemanda.

Persónuupplýsingar skulu afhentar á öruggan hátt þannig að fyllsta trúnaðar sé gætt. Um rétt forsjárlauss foreldris til aðgangs að upplýsingum um barn sitt upp að 18 ára aldri fer samkvæmt ákvæðum barnalaga nr. 76/2003.

Upplýsingaskylda gagnvart foreldrum / forráðamönnum

Óski foreldrar/forráðamenn nemanda, sem er yngri en 18 ára, eftir upplýsingum frá framhaldsskólum um námsframvindu, skólasókn eða annað sem tengist barni þeirra sérstaklega ber skólastjórnendum að veita þær upplýsingar.

Þegar nemandi hefur náð sjálfræðisaldri er einungis heimilt að veita honum sjálfum, eða þeim sem nemandinn veitir skriflegt umboð, upplýsingar um hagi hans úr gagnasafni skólans.
Reglur skólans um upplýsingar til foreldra ólögráða nemenda

Með forræðislögum nr 71/1997 breyttist staða margra nemenda þegar lögræðisaldur var hækkaður úr 16 árum í 18 ár. Í fyrstu grein laganna segir: "Lögráða verða menn 18 ára. Lögráða maður er sjálfráða og fjárráða." Um helmingur nemenda Menntaskólans á Akureyri er því ólögráða og þess vegna hvorki sjálfráða né fjárráða. Skyldur skólans við foreldra eða forráðamenn ólögráða nemenda eru því aðrar en við foreldra lögráða nemenda. Skólaráð hefur samþykkt eftirfarandi reglur er varða upplýsingar til foreldra og forráðamanna ólögráða nemenda.

Nám

Óski foreldri eða forráðamaður formlega eftir upplýsingum varðandi skólagöngu ólögráða nemenda ber skólameistara að veita slíkar upplýsingar.

Einkunnir

Að loknum prófum haust og vor eru einkunnir birtar á Innu og verða þá nemendum og foreldrum þeirra aðgengilegar. Einkunnablöð eru ekki send heim, nema þess sé óskað.

Skólasókn

Nemendur hafa allir aðgang að upplýsingakerfinu Innu og ber að fylgjast með skráningu skólasóknar sinnar þar. 

Foreldrar ólögráða nemenda geta fengið aðgang að Innu og eru hvattir til að fylgjast með skólasókn barna sinna þar. Um það bil 4 sinnum á önn er farið yfir fjarvistir nemenda og ef nemandi er þá undir 90% skólasókn og ekki eru skýringar á þeim fjarvistum er foreldrum eða forráðamönnum sendar upplýsingar um það.
 Segi nemandi, yngri en 18 ára, sig frá námi við skólann vegna fjarvista, sendir skólameistari foreldrum bréf þar sem slíkt er formlega tilkynnt.

Tilvísanir

Ef starfsmaður skólans: skólameistari, aðstoðarskólameistari, námbrautarstjóri, námsráðgjafi, skólalæknir eða forvarnarfulltrúi, telur æskilegt eða nauðsynlegt fyrir heilsu eða velferð ólögráða nemanda að leita læknis, sálfræðings eða annarra sérfræðinga skal áður haft samband við foreldra eða forráðamenn.