Nemendur í Berlínaráfanga í þýsku brugðu sér til fyrirheitnu borgarinnar á aðventunni. Sölvi Karlsson og Hjörvar Blær Guðmundsson tóku saman frásögn um ferðina.

Þann 3. desember síðastliðinn héldum við, 26 nemendur við Menntaskólann á Akureyri, til hinnar fögru höfuðborgar Þýskalands, Berlínar. Það sem af er vetrinum höfum við undirbúið ferðina og kynnt okkur menningu og sögu þessarar stórmerku borgar. Því hafði byggst upp mikil spenna fyrir ferðinni til að upplifa það sem við höfðum skoðað og kynnt okkur um borgina hér heima.

Með okkur í för var ein þýskukennara skólans, Sigrún Aðalgerisdóttir, og eiginmaður hennar og upplýsingafulltrúi Landsbjargar, Þorsteinn G. Gunnarsson. Lagt var af stað seint að föstudagskvöldi með rútu SBA Norðurleiðar til Keflavíkur þaðan sem flogið var snemma morguns. Eftir þriggja tíma flug lentum við í frosti og þoku á Schönefeld flugvellinum um klukkan 11 að staðartíma.

Þetta ferðalag stóð yfir í 5 daga og var margt brallað á þeim tíma. Þar má nefna jólamarkaðina sem eru á hverju strái í Berlín á þessum árstíma, þar mátti upplifa mikla jólastemmningu og njóta hinna ýmsu þýsku rétta svo sem bratwurst, currywurst og glühwein.

Þétt dagskrá var alla dagana, svo skoða mætti sem mest. Má þar einna helst nefna hið víðfræga Brandenburgarhlið, East Side Gallery, Checkpoint Charlie, minnismerki um helförina, Gedenkstätte Berliner Mauer og Reichstagbygginguna. Mikið var svo um frjálsan tíma þar sem hver og einn gat fundið eitthvað sér við hæfi, því fjölbreytt úrval safna og markverðra staða er að finna í Berlín. Margir sóttu Menschen safnið heim, en það er víðfrægt fyrir þurrkaða mannslíkama, einnig sóttu margir Stazi og DDR söfnin, þá voru í hópnum nokkrir íþróttakappar sem heimsóttu Ólympuleikvanginn fræga, þar sem Ólympíuleikarnir voru haldnir 1936, en hann er einmitt annar þjóðarleikvanga Þýskalands.

Ekki má gleyma verlsunarferðunum sem voru ófáar hjá sumum, en menn gátu einmitt nýtt sér frítímann í að kaupa jólagjafir handa vinum og vandamönnum á hagstæðu verði.

Þessi ferð heppnaðist vel þar sem allir komust lífs af og flestir skemmtu sér nokkuð vel.

 

Berlin