Hluti leikhóps LMA sem tekur þátt í uppfærslu á Gosa. Mynd fengin af fésbókarsíðu LMA.
Hluti leikhóps LMA sem tekur þátt í uppfærslu á Gosa. Mynd fengin af fésbókarsíðu LMA.

Þorri og góa voru mánuðir áskorana til forna. Gengið hafði á matarbirgðir vetrarins og vetrarhörkur höfðu áhrif á daglegt líf. Þá var mikilvægt að þreyja þorrann og góuna í bið eftir einmánuði. Nú er öldin önnur, meira til skiptanna og erfitt tíðarfar kemur ekki í veg fyrir blómlegt félagslíf nemenda og starfsfólks MA innan sem utan veggja skólans.

Þorrinn fór vel af stað með girnilegum kaffiveitingum fyrir starfsfólk á bóndadegi. Ekki er ósennilegt að leikurinn verði endurtekinn við upphaf góu á konudegi. Að njóta góðra veitinga á þorra er allra góðra gjalda vert en ekki má gleyma góðri heilsu og starfsþróun. Starfsfólk tekur þessa dagana þátt í Lífshlaupinu, heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands með gönguferðum, hlaupum, sundi og skíðagöngu svo eitthvað sé nefnt. Kennarar fengu kynningu á áhugaverðu starfsþróunarverkefni á fjórða mánuði vetrar og fróðleg erindi voru í boði á Menntabúðum. Við lok góu fagnar starfsfólk komu einmánaðar með veglegri árshátíð. Nemendur slá ekki slöku við frekar en starfsfólk og upplifa menninguna með ýmsum hætti á þorra. Fyrst skal nefna vel heppnaða söngkeppni í febrúarbyrjun sem við höfum greint frá hér á vefnum okkar. Nemendur í LMA hafa upp á síðkastið æft af miklum krafti fyrir Gosa en leikverkið verður frumsýnt þann 8. mars næstkomandi. Þá fengu nemendur sviðslistabrautar að fylgjast með æfingu Leikfélags Akureyrar á leikverkinu And Björk, of course… eftir Þorvald Þorsteinsson og nemendur í 3. bekk heimsóttu Listasafnið á Akureyri. Svona mætti lengi telja.

Menningin og félagslífið halda áfram að blómstra á góu með starfamessu, þemadögum, háskólakynningu og frumsýningu á Gosa. Við skulum sjá hvað einmánuður, sjötti og síðasti vetrarmánuðurinn ber í skauti sér.