Stúdentar 2015
Stúdentar 2015

Menntaskólanum á Akureyri var slitið í 135. sinn þann 17. júní við athöfn í Íþróttahöllinni á Akureyri. Jón Már Héðinsson brautskráði þá 152 nýstúdenta, 94 stúlkur og 58 pilta. Meðaleinkunn á stúdentsprófi var 7,54, en stúdentseinkunn er meðaltal allra einkunna nemandans öll fjögur námsárin. Dux scholae var Ásdís Björk Gunnarsdóttir á raugreinasviði með ágætiseinkunn 9,56. Bryndís Sóley Gunnarsdóttir og Sigríður Diljá Vagnsdóttir, báðar á tungumála- og félagsgreinasviði hlutu einnig ágætiseinkunn 9,33. Allar hlutu þær verðlaun og viðurkenningar, og svo var um fleiri.

Í skólaslitaræðu fjallaði meistari meðal ananars um brotthvarf nemenda úr skóla og orsakir þess og nauðsynleg viðbrögð. Tækniheimurinn og sölumennska honum tengd tæki athygli nemendanna og við því þyrfti að bregðast með því að skólarnir kenndu nemendum að nýta sér tækin til gagns. Meginhugsjónin ætti að vera að efla öryggi og sjálfsvitund nemenda með ráðgjöf og aðgerðum til að fyrirbyggja vanda. Hins vegar væri eitt helsta vandamál nemenda æfingarleysi í lestri, og það þyrfti að bæta, helst með samstarfi skóla og heimila. Eins þyrfti að efla forvarnir gegn kvíða og vaxandi vanlíðan skólanemenda. Hafin væri í skólanum starfendarannsókn nokkurra kennara með nemendum, sem stefndi að því að nemendur rannsaki eigin feril og finni leiðir til að bæta árangur sinn í skóla. Skólinn ætti skv. námskrá að vera skapandi lærdómsstofnun með há markmið. „Við setjum okkur það markmið að mennta nemendur sem sjálfstæða borgara með sterka siðferðisvitund,“ sagði Jón Már.

Skólameistari sagði rannsóknir sýna að það væri mikilvægast um framgnag nemenda að fá jákvæða endurgjöf kennara. Með aukinni tækni og netnotkun nemenda ykist mikilvægi kennara meðal annars við að þjálfa þá og aðstoða við að meta þekkinguna. Kennarar væru þessi misserin að reyna nýjar kennsluaðferðir, meðal annars með því að nota snjalltæki við kennslu og þjálfa nemendur í að umgangast þessi tól sem vinnutæki, eins og þeir þyrftu að gera á vinnumarkaði.

Meistari fjallaði um lengd námstíma og stefnu menntamálaráðuneytis um þriggja ára framhaldsskóla. Í MA hefur í fimm ár verið kennt samkvæmt námskrá byggðri á framhaldskólalögunum frá 2008, en í stað þess að bjóða strax upp á þriggja ára skóla er stefnt að því að innrita haustið 2016 í skóla með sveigjanlegum námslokum, þar sem nemandi geti valið að ljúka 210 eininga stúdentsprófi á 3, 3½ eða 4 árum og bætt við þessar 210 einingar ef þeir óska þess sjálfir. Með þessu móti er lágmarksnámið til stúdentsprófs skert sem svaraði einni önn í núgildandi kerfi. Það skipti þó meira máli en einingafjöldi að inntak náms sé viðunandi og stúdentar hafi í framtíðinni ekki síðri aðgang að háskólanámi en verið hefur.

Jón Már hrósaði kennurum fyrir tímamótakjarasamninga sem hann vonaðist til að yrðu til hagsbóta fyrir alla. Jón Már nefndi líka það atvik þegar ráðuneytið kynnti aðgerðir til að sameina framhaldsskóla á Norðurlandi, ráðherra kom norður og leiðrétti, hér hefði átt að tala um samstarf ekki sameiningu. MA er tilbúinn til að vinna að samstarfi til hagsbóta fyrir nemendur. En slíkt samstarf hlyti að kalla á að starfsár MA færðist nær starfsári annarra skóla.

Skólameistari greindi frá breytingum á starfsliði skólans og kvaddi við þetta tækifæri Jónas Helgason, sem látið hefur af störfum eftir að hafa kennt og unnið fjölbreytilegt frumkvöðlastarf í skólanum í hálfan fjórða áratug eða svo. Hann sæmdi Jónas gulluglu skólans að þessu tilefni.

Mikið félagslíf var í skólanum að vanda og skólameistari sagði frá nokkru því helsta sem þar fór fram. Hann talaði um nauðsyn þess og kosti að treysta nemendum fyrir félagslífi skólans, sem stundum væri á þeirra eigin vegum en stundum undir handleiðslu kennara, eins og námsferðir innanlands og til erlendra borga og ferðir nemenda á ferðamálakjörsviði, skipulagðar af kennurum en þar sem nemendur færu á eigin vegum og öfluðu sér efnis til að gera kynningarmyndbönd um borgir sínar.

Fulltrúar afmælisárganga fluttu ávörp og færðu skólanum gjafir, mest í Uglugjóðinn sem sækja má um til verkefna í þágu skólans og menntunar. Einna sprækastur afmælisstúdenta var Haraldur Sigurðsson, níræður að aldri og 70 ára stúdent. Fulltrúi 60 ára stúdenta var Júlíus Sólnes, 40 ára stúdenta Ásdís Ósk Valsdóttir, 25 ára stúndenta Hrafnhildur Brynjólfsdóttir og 10 ára stúdenta Una Guðlaug Sveinsdóttir, en þau beindu orðum sínum mjög til nýstúdenta, fjölluðu um það sem framundan væri og hvöttu þá til að vinna af heilindum landi og þjóð, sjálfum sér og ekki síst náttúrunni. 50 ára stúdentar fóru sérstaka leið, fluttu skólanum ávarp í ljóði og lagi Jóns Hlöðvers Áskelssonar, en félagar hans fluttu verkið, Jóhannes Örn Vigfússon lék á píanó og Oddur Sigurðsson söng. Valgeir Andri Ríkharðsson flutti undir lokin ávarp nýstúdents, snjallt og hressilegt í alla staði.

Að lokum beindi skólameistari orðum að nýstúdentum og kvaddi þá með þeim orðum að þeirra væri að takast á við framtíðina og bæta veröldina. Þeir sem nú væru 50 ára stúdentar hefðu sumir tekið virkan þátt í 68 byltingunni, en síðan hefði verið logn á sjó. Það mætti hafa í huga. En framtíðin væri framundan og nýstúdentar yrðu að leita hamingjunnar, sem væri hvergi til nema í höndum þeirra sjálfra.

Myndir frá morgunstund í Kvosinni

Myndir frá skólaslitum í Íþróttahöllinni. Nærmyndir á Sviði tók Guðjón H. Hauksson

Myndir frá myndatöku og opnu húsi

Myndasafn á Facebook, fleiri myndir en hér.