Í Friðheimi er notalegt andrúmsloft, dýnur, teppi, hengirólur og grjónasekkir til að koma sér vel fy…
Í Friðheimi er notalegt andrúmsloft, dýnur, teppi, hengirólur og grjónasekkir til að koma sér vel fyrir og slaka á.

MA er þátttakandi í Erasmus+ verkefni ásamt skóla í Budapest. Verkefnið kallast „Supporting Students' and Educators' Mental and Physical Well-being in Challenging Times“. Í verkefninu er unnið að því að finna og hanna átta bjargráð sem geta nýst nemendum og starfsfólki skólans við að bæta andlega og líkamlega heilsu og vellíðan. Alls koma tíu starfsmenn að verkefninu, fimm íslenskir og fimm ungverskir. 

Nú eru bjargráðin eitt af öðru að verða tilbúin og það nýjasta er Friðheimur sem er slökunarherbergi í kjallara Gamla skóla. Það er opið öllum en það þarf að skrá sig og bóka tíma á blaði sem er fyrir framan herbergið. Hægt er að koma og slaka á og íhuga í friði og ró og einnig er í boði skanna QR kóða og fá aðgang að fjölbreyttum æfingum og slökunum. Herbergið er ekki hugsað til að læra eða vinna. Ganga þarf vel um herbergið, skór, matur og drykkir eru bannaðir þar. Vonandi munu mörg nýta sér herbergið til að næra sálina og slaka á í fallegu umhverfi (Anna Eyfjörð Eiríksdóttir).