Nemendur fá fræðslu hjá Renu á Þjóðlagasetri Sr. Bjarna Þorsteinssonar
Nemendur fá fræðslu hjá Renu á Þjóðlagasetri Sr. Bjarna Þorsteinssonar

Nemendur í menningarlæsi fóru í náms- og kynnisferð til Siglufjarðar í gær. Ferð til Siglufjarðar er fyrir löngu orðinn fastur liður í náminu en meginmarkmið ferðarinnar er að kynnast sögu og menningu á staðnum í nútíð og fortíð. Veðrið var ekki upp á marga fiska í þetta skiptið, næðingur og gekk á með éljum. Kalt tíðarfar kom þó ekki í veg fyrir ánægjulega samverustund nemenda, starfsfólks og heimamanna.

Með heimsókn á Síldarminjasafnið og Þjóðlagasetrið fengu nemendur innsýn í atvinnulíf og menningu bæjarins á fyrri hluta 20. aldar. Atvinnulíf og menning samtímans sameinaðist svo í innliti til Aðalheiðar Eysteinsdóttur listakonu í Alþýðuhúsinu. Á milli þess sem nemendur ferðuðust á milli tímabila í sögu bæjarins, gengu þeir um bæinn, leystu verkefni og tóku tal við heimamenn.

Að venju nærðu gestirnir frá Akureyri líkama og sál í Siglufjarðarkirkju. Eftir nestisstund í safnaðarheimilinu var safnast saman í kirkjunni þar sem séra Sigurður Ægisson spjallaði við hópinn auk þess sem sungnar voru sjómannavísur við undirleik Sturlaugs Kristjánssonar.