Í vikunni hefur Ratatoskur staðið yfir í skólanum. Ratatoskur var í Snorra-Eddu íkorni sem hljóp án afláts milli Níðhöggs, sem nagaði rót heimstrésins, og arnar, sem sat efst í greinum þess, og bar öfundarorð eða slúður á milli þeirra. Af einhverjum undarlegum sökum hefur nafnið Ratatoskur hins vegar verið notað um daga í skólanum sem brotnir eru upp með alls kyns námskeiðum og fyrirlestrum, skipulögðum af nemendum sjálfum og iðulega í umsjá þeirra eða kennara, sem oftast fjalla um eitthvað gerólíkt kennslunni, eða fengnir eru fyrirlesarar annars staðar að.

Dagskrá Ratatosks er jafnan mjög fjölbreytt og nú var boðið upp á gönguferðir og sundferðir eldsnemma að morgni, skíðaferðir, námskeið í forritun og matargerð, kynningar á ferðamöguleikum erlendis, nám að loknu stúdentsprófi, fyrirlestra um aðskiljanleg efni, svo eitthvað sé talið. Kennt er tvo fyrstu tíma dagsins en síðan leysist allt upp – en nemendur þurfa að skila þátttökuseðlum eftir settum reglum.

Myndin hér var tekin í Kvosinni þar sem Ghasoub Abed enskukennari fjallaði í afar fróðlegu erindi um Ísrael og Palestínu, trú og pólitík fyrir botni Miðjarðarhafsins.

Ghasoub