Skólinn iðar af lífi á þemadögum
Skólinn iðar af lífi á þemadögum

Í dag og á morgun eru árlegir þemadagar í skólanum. Þeir ganga jafnan undir nafninu Ratatoskur. Hefðbundin kennsla samkvæmt stundaskrá víkur að miklu leyti fyrir uppákomum af ýmsu tagi. Meðal þess sem boðið verður upp á að þessu sinni er byrjendakennsla í glímu, fjallaskíði, pílumót og biblíulestur. Þetta er aðeins brot af því sem verður í boði fyrir og eftir hádegi, báða dagana.

Nafngift þemadaganna kemur líklega einhverjum spánskt fyrir sjónir. Nafnið Ratatoskur kemur úr norrænni goðafræði. Í Snorra-Eddu, Gylfaginningu, segir frá íkorna sem hljóp upp og niður Ask Yggdrasils og bar öfundarorð á milli arnarins og Níðhöggs. Íkorninn hét Ratatoskur. Um Ratatosk segir í Snorra-Eddu:

Ratatoskr heitir íkorni,
er renna skal
at aski Yggrdrasils;
arnar orð
hann skal ofan bera
ok segia Níðhöggvi niðr.