Nýstúdentar MA 2014
Nýstúdentar MA 2014

Menntaskólanum á Akureyri var slitið í dag með athöfn í Íþróttahöllinni. 179 stúdentar voru brautskráðir. Veður lék við nýstúdenta og aðra nærstadda, hiti var um og yfir 20 stig og stúdentaveislur fluttust víða úr stofum og út í garða. Mikill fjöldi fólks kom á Opið hús í MA að brautskráningu lokinni. Hátíðarkvöld nýstúdenta er í Íþróttahöllinni í kvöld, en um 11.30 má búast við að þeir komi í miðbæinn og marseri á Ráðhústorgi. Fjölmargar myndir frá brautskráningunni eru á Facebooksíðu MA

Hér er útdráttur úr ræðu skólameistara við skólaslit:

Menntaskólanum á Akureyri var slitið í 134. sinn þriðjudaginn 17. júní. Jón Már Héðinsson skólameistari sleit skóla, fulltrúar afmælisárganga og nýstúdenta fluttu ávörp og nemendur léku tónlist.

Í ræðu talaði skólameistari um  hlutverk skólans og gat þess að í nýrri námskrá MA kæmi fram að skólinn væri skapandi lærdómsstofnun sem byggi nemendur undir framtíðina. Mikilvægt væri að nemandinn tæki ábyrgð á námi sínu og spyrði spurninga sem kennarinn hjálpaði til við að tengja markmiðum skólans og lífsins. Hefðbundinni nálgun náms væri ögrað strax á fyrsta ári í stórum áföngum, menningarlæsi og náttúrulæsi. Námskráin hafi verið gerð innan veggja skólans og hún sé lifandi og í reglulegri endurskoðun. „Til þess að ná góðum árangri þarf æfingu en hún þarf að vera merkingarbær og vekja áhuga. Menntun þarf sinn tíma og atriði eins og æfing í lýðræði, siðfræði og gagnrýninni hugsun þarf einstaklingsbundinn tíma. Við setjum okkur það markmið að mennta nemendur sem sjálfstæða borgara með sterka samfélagsvitund.“

Skólameistari vék að umræðunni um skipan framhaldsskóla og rifjaði upp að fyrir aldarfjórðungi hafi Tryggvi Gíslason skólameistari MA sett fram hugmyndir um þriggja ára skóla þar sem nemendur fengju framfærslustyrk og ókeypis skólabækur og laun kennara hækkuðu um 25%. Nú hefði verið gert átak í að bæta laun kennara en annað sæti eftir. Í könnun kæmi fram að helmingur nemenda vildi geta lokið námi á skemmri tíma og um helmingur þeirra gæti lokið því á þremur árum. Fram undan væri að athuga hvaða áhrif það hefði á menningu skólans að unnt sé að ljúka honum á 3 eða 4 árum, það hefði til dæmis verið reynt með góðum árangri í Kvennaskólanum.

Jón Már rifjaði upp að á nítjándu öld hefði verið deilt um það í Bretlandi hvort hægt væri að kenna almenningi að lesa og skrifa. Vissulega hafi það valdið byltingu. Í MA stæðu menn nú frammi fyrir því að þjálfa nemendur í sköpun „... svo þeir geti þróað með sér þann mikilvæga eiginleika sem allir búa yfir, að gefa nemendum kost á að njóta þess sem þeir eru góðir í og byggja námið utan um það.“ Þá væru nemendur sífellt að taka á sig meiri samfélagslega ábyrgð eins og fram hefði komið til dæmis með stofnun feministafélags og málefnalegri umræðu og jafnrættismál og einnig á skólafundi á vordögum.

Jón Már vék að námskrá MA og skólasýn og hvernig það tengist allt daglegum vinnudegi skólans. Nýja námskráin hefði tekið gildi 2010 svo nú væri brautskráður fyrsti stúdentahópurin samkvæmt henni. Eftir þessa fjögurra ára reynslu væri sýnt að gerðar yrðu nokkrar breytingar, en auk þess væri námskráin í stöðugri endurskoðun, breytt og bætt jafnóðum. Jafnframt þessu hefði orðið breyting í námstækni og tækjakosti. Nemendur væru ekki þeir einu sem væru að læra eitthvað nýtt, kennararnir líka. Skólameistari nefndi sem dæmi það starf sem Guðjón Andri Gylfason hefði unnið í speglaðri kennslu og sagði frá splunkunýrri rafbók um efnafræði, sem synd yrði í Opnu húsi í MA síðar um daginn.

Skólameistari nefndi snjalltækjabyltinguna, í 800 manna skóla væru allt að 1800 snjalltæki og vissulega hefði það áhrif á athygli nemenda. Þess vegna hefði í vetur verið að störfum hópur nemenda, kennara og foreldra til að setja eins konar umferðarreglur um notkun þessara tækja. Í tengslum við þetta og fleira mætti velta fyrir sér að gera eins konar ráðningarsamning vð nemendur og fjölskyldur þeirra um skyldur og markmið nemenda og ábyrgð fjölskyldu og skóla. Algengt væri að hafa áhyggjur af unglingum. Í könnunum komi hins vegar fram að nemendum MA líði jafnan mjög vel og séu áhugasamir um nám. Einnig komi fram að sífellt fleiri hafi kjark til að afneita áfengi og vímuefnum. Hins vegar sé undarlegt að þegar unglingar séu komnir í framhaldsskóla ætlist forráðamenn þeirra til þess að skólinn taki við áhyggjum þeirra af áfengisneyslu unglinganna. Margt hafi verið um þetta rætt, en FORMA, Foreldrafélag MA og stjórn skólafélagins Hugins hafi gert með sér samkomulag um samskipti við nýnema.

Jón Már fagnaði því að samingar um laun kennara gætu aukið áhuga á kennarastarfi og væru upphafið að því að losa skólana úr fjötrum niðurskurðar. Starfsfólk hafi unnið við afar erfiðar aðstæður, en samt verið að vinna að því marki að draga úr brottfalli. Rekstur skólans hefði verið afar erfiður, bóknámsskólar eins og MA hafi verið sveltir umfram aðra skóla svo legið hafi við lokun. Hins vegar hefði menntamálaráðhera Illugi Gunnarsson lýst yfir skilningi á erfiðri rekstrarstöðu bóknámsskóla og væri vonandi að hlutur þeirr verði réttur.

Skólameistari sagði frá breytingum á kennara- og starfsmannaliði. Þar gat hann þess sérstaklega að Kristín Sigfúsdóttir líffræðikennari væri nú að kveðja eftir 31 árs kennslu. Hann kallaði hana upp og veitti henni gulluglu, heiðursmerki skólans.

Félagslíf er eitt af megineinkennum MA og það er ekki einvörðungu skemmtistarf innan veggja skólans. Meðal annars má geta þess að nemendur í lífleikniáfanga á þriðja ári tóku að sér að leiðbeina eldri borgurum í tölvuleikni, og það var þakklátt starf. Félagslífið nær einnig út fyrir landsteinana og tengist námi, til dæmis Parísarferð frönskunema með Erni Þór Emilssyni, Berlínarferð þýskunema með Sigrúnu Aðalgeirsdóttur og Lundúnaferð eðlisfræðinema með Brynjólfi Eyjólfssyni. Þá fara nemendur líka í námsferðir til útlanda án þess að kennarar séu með í för. Þannig hafa nemendur á ferðamálakjörsviði frá því 2004 farið til borga í Evrópu eftir undirbúning undir handleiðslu kennara og lokaverkefnið þeirra er kynnngarmynd um borgina.

 

Skólafélagið Huginn er kjölfestan í félagslífinu og stendur meðal annars að áfengis- og vímulausri árshátíð nemenda og starfsmanna skólans auk þess að standa fyrir glæsilegri söngkeppni og margvíslegum kvöldvökum. Dansfélagið Príma hefur aldrei verið eins öflugt og í vetur og þátttaka stráka í dansatriðum mjög mikil og vaxandi, en auk þess kenna íþróttakennarar gömlu dansana í aðdraganda árshátíðar hvert ár. Leikfélag MA setti upp söngleikinn Vorið vaknar og glæsileg skólablöð komu út á báðum önnum. Þá stóðu Gettu betur lið og Morfíslið skólans sig vel, komust í undanúrslit. Og í námstengdu félagslífi er gaman að geta þess að skólinn á fulltrúa í Ólympíukeppni í stærðfræði og eðlisfræði og Ásgerður Ólöf Ásgeirsdóttir var fulltrúi Íslands í alþjóðlegri enskuræðukeppni í London.

Jón Már sagði frá því að á vordögum hefði komið út bókin Lifandi húsið, sem Tryggvi Gíslason fyrrum skólameistari tók saman um Gamla skóla.

Fulltrúar afmælisárganga færðu skólanum kveðjur og gjafir. Fulltrú 60 ára stúdenta var Vilhjálmur Einarsson, Jóhann Heiðar Jóhannson var fulltrúi 50 ára stúdenta, Valgerður H. Bjarnadóttir talaði fyrir hönd 40 ára stúdenta, Drífa Þuríður Arnþórsdóttir fyrir hönd 25 ára stúdenta og Heimir Björnsson mælti fyrir munn 10 ára stúdenta. Bjarni Karlsson fráfarandi formaður Hugins flutti kveðju nýstúdenta.

Að lokum kvaddi Jón Már Héðinsson nýstúdenta og þakkaði þeim samveruna undanfarin ár. Hann hvatti þá til að hafa kjark til að takast á við breytingar en skólinn myndi fylgja þeim á lífsins vegum. „Í erli dagsins er mikilvægt að eiga sér griðastað í þögn, gott að nota kvöldin áður en farið er að sofa og rifja upp þrennt jákvætt sem þið hafið gert yfir daginn. Sannið til, þetta breytir miklu, ykkur þykir vænna um lífið og þá sem næstir ykkur eru.“