Frá skólafundi
Frá skólafundi

Í gær var skólafundur í Kvosinni þar sem fjallað var um nýtt skóladagatal og tilfærslu skólaársins og fjölmargt sem tengist því. Stjórn Hugins, skólafélags MA, hélt utan um fundinn og hafði safnað fyrirspurnum og athugasemdum frá nemendum. Karólína Rós Ólafsdóttir stýrði fundi af röggsemi.

Jón Már Héðinsson skólameistari, Sigurlaug Anna Gunnarsóttir aðstoðarskólameistari og sviðsstjórarnir Alma Oddgeirsdóttir og Valdís Björk Þorsteinsdóttir gerðu grein fyrir breytingum og hugmyndum varðandi skóladagatalið og fyrirkomulag skólaársins, lengd kennslustunda og fleira og svöruðu spurningum nemenda, ýmist þeim sem skólafélaginu höfðu borist og spurningum úr sal.

Nokkuð heilleg mynd er komin á skóladagatalið og hefur verið höfð hliðsjón af óskum og ábendingum nemenda hvað það varðar, til dæmis um skiptingu próftímans fyrir og eftir jól. Ekki eru allir þræðir komnir í vefinn en unnið verður að því að fullgera stundaskrána á næstu vikum og stjórnendur kváðust myndu gera það með hliðsjón af og í samráði við nemendur og kennara.

Flestir fundargestir voru nemendur efri bekkja, eins og eðlilegt er, þar sem fyrsta árs nemar eru þeir fyrstu sem ganga inn í nýtt kerfi sem gefur kost á þriggja ára námi með sveigjanleika að óskum þeirra sjálfra.

Í næstu viku munu brautrarstórarnir ganga í alla fyrstu bekki og ræða við þá um námskrána og sveigjanleg námslok.

Fleiri myndir eru á Facebook.