Útsýni frá Skólavörðunni. Mynd: Sævar Helgason
Útsýni frá Skólavörðunni. Mynd: Sævar Helgason

Gönguferðir að Skólavörðunni í Vaðlaheiði eru vinsælar um þessar mundir. Skólavarðan var hlaðin veturinn 1930-31 og var eiginlega undanfari þess sem síðar er orðið vinsælt, íþróttir og útivist.

Skemmtileg frásögn um gerð skólavörðunnar, annars konar líkamsrækt og námsferðir birtist í Alþýðublaðinu 29. mars árið 1936. Þar segir Jón Kristjánsson frá því að nemendur í hinum nýja menntaskóla hafi farið upp á Vaðlaheiði og hlaðið þar skólavörðu, meðal annars vegna þess að gamla skólavarðan í Reykjavík hafði verið rofin. Hann lýsir ferðinni og hleðslunni, en segir jafnframt frá annari, nýstárlegri líkamsrækt en harðsperruæfingunum í leikfimishúsinu, meðal annars sundnámskeiði í Svafaðaral, æfingum róðrarfélagsins Braga á bátunum Kormáki og Hallfreði, sem skólinn lét smíða, ferð á Kaldbak og samsæti hjá foreldrum nýja leikfimiskennarans á Grenivík og ferð nemenda MA og MR til Grímseyjar og um Þingeyjarsýslur. Þetta er bráðskemmtileg lesning.

Leikfimiskennarinn sem kom á öllum þessum nýjungum var Hermann Stefánsson, en hann kenndi íþróttir, söng og fleira við skólann frá 1929-1974. Síðar kenndi hann nemendum skólans blak, og það var einungis stundað í MA uns gamlir nemendur tóku upp þráðinn að námi loknu og stofnuðu blakfélög.

Vorið 1974 var Skólavarðan orðin illa farin og meira og minna hrunin og þá fóru verðandi stúdentar að undirlagi Tryggva Gíslasonar skólameistara og endurreistu vörðuna. Þeir fóru nokkrar ferðir til að vinna verkið. Frá því eru til ágætar myndir frá 2., 4. og 8. júní 1974.

2.júní 1974
2. júní 1974

4. júní 1974
4. júní 1974

8. júní 1974
8. júní 1974

 

Nú nýverið settu Sævar Helgason og Kristinn Svanbergsson upp skilti við Vaðlaheiðarveg, sem vísa á gönguleiðina upp að Skólavörðu og komu auk þess fyrir brú yfir læk eða reyndar skurð á leiðinni. Þeir eru í hópi göngugarpa sem fara á fjöll árið um kring og oft að Skólavörðunni. Sævar setti sér það mark á síðasta ári að fara að vörðunni sem svarar einu sinni á viku, og stóð við það.

Kristinn
Kristinn setur upp skilti
Sævar
Sævar við Skólavörðuna

 

Á undanförnum árum hefur af og til borið við að afmælisstúdentar hafa gengið upp að Skólavörðu þegar þeir koma hingað og fagna stúdentsafmælum. Sævar lýsir gömngunni á þessa leið: „Leiðin upp að Skólavörðu er mjög þægileg, samtals 5 km fram og til baka og 500 m gönguhækkun. Tekur um 1,5-2,5 klst. að ganga. Frábært útsýni inn og út Eyjafjörð og yfir Akureyri.“