Menntaskólinn á Akureyri var settur í morgun að viðstöddum miklum fjölda fólks, bæði nemenda og forráðamanna nýnema. Í upphafi athafnar og undir lok hennar spilaði Tumi Hrannar Pálmason og söng.

Jón Már skólameistari ávarpaði gesti og gat þess að í skólann væru við upphaf annar skráðir 745 nemendur, 238 í fyrsta bekk, 175 á öðru ári, þriðjubekkingar 182 og í fjórða bekk 150.  Að vanda eru utanbæjarnemendur margir, en á Heimavist eru 330 manns og rúmlega helmingur þeirra úr MA. Einnig búa allmargir nemendur í leiguhúsnæði í bænum. Mötuneyti er á heimavist, en allir nemendur geta keypt sér fæði þar, ekki síður þeir sem leigja í bænum eða bæjarnemendur, sem geta keypt stakar máltíðir eða verið í reglulegu fæði, til dæmis í hádeginu.

Skólameistari sagði að móttaka nýnema yrði á þriðjudag og síðar kom fram stjórn skólafélagsins Hugins og útlistaði fyrir foreldrum fyrirkomulag þess dags.

Meistari nefndi að nú gæfist nemendum kostur á þriggja ára námi í skólanum og því reyndi mjög á kraft og seiglu nemenda og samvinnu nemenda og forráðamanna þeirra svo og samvinnu heimila og skóla. Allt væri gert til að nemendur kæmust klakklaust í gegnum skólann, en það væri krefjandi verkefni, jafnt fyrir nemendur og kennara. Nauðsynlegt væri að skipuleggja tíma sinn og nýta hann vel, skólinn stæði opinn nemendum til náms allt til klukkan 10 á kvöldin og enginn ætti að þurfa að bera nám og verkefnavinnu með sér heim. En skólavistin væri alls ekki eingöngu nám og kennsla. Félagslífið í MA væri mikið og afskaplega mikilvægt að taka þátt í því. Slíkt væri í raun verklegt nám í því að taka þátt í lífi og starfi í samfélaginu.

Jón Már gat þess að óvenjumiklar breytingar væru á kennaraliðinu, sumpart vegna þess að námsáfangar flyttust til í nýju kerfi. Hann fjallaði líka um nauðsynlega nemendavernd og sagði frá því að nú hefði verið ráðinn sálfræðingur til starfa við skólann, Kristín Elva Viðarsdóttir. Með nemendavernd, meðal annars starfi námsráðgjafa og sálfræðings, væri öðrum þræði unnið að því að draga úr brottfalli nemenda frá námi og auka vellíðan þeirra. Hann sagði líka frá áhuga sínum og hugmyndum að sameina námsvinnuna hreyfingu, því rannsóknir sýndu að röskleg hreyfing hefði jákvæð áhrif á heilann og starfsemi hans.

Skólameistari hvatti nemendur til að sinna námi sínu og tók fram að ekki væri reiknað með því að nemendur ynnu launastörf með náminu. Námið væri full vinna. Hann þakkaði svo foreldrum fyrir að treysta skólanum fyrir börnum sínum og hvatti til góðs samstarfs foreldra og skólans.

Í lokin brá Vilhjálmur Bergmann Bragason enskukennari sér að píanóinu og flutti eitt lag til að minnast heimsóknar Justins Bieber til landsins.

Myndir eru á Facebook.