Ingibjörg Magnúsdóttir heldur utan um svefnrannsóknina í MA
Ingibjörg Magnúsdóttir heldur utan um svefnrannsóknina í MA

 

Annað árið í röð geta nemendur í MA tekið þátt í svefnrannsókn. Rannsóknin felur í sér að rannsaka svefnheilbrigði þar sem metin eru áhrif stuttrar fræðslu og núvitundaríhlutunar á svefnlengd, svefngæði, kvíða, þunglyndi og lífsgæði ungmenna. Rannsóknin á síðasta skólaári var forrannsókn. Þá buðu sig fram tæplega 70 sjálfboðaliðar nemenda í skólanum og 25 af þeim mættu einnig utan skólatíma í aukatíma tvisvar í viku í fjórar vikur til að kynnast og þjálfast í ýmsum aðferðum til að bæta svefngæði. Með því að fræðast og læra öndunar- og slökunartækni þá bættu mörg þeirra sem tóku þátt í forrannsókninni svefngæði sín og vellíðan.

Alls tekur 91 nemandi þátt í svefnrannsókninni núna en allur 1. bekkur verður einu sinni í viku í tíma þar sem boðið verður upp á öndunaræfingar og slökun og kynntar leiðir til að bæta svefn.

Svefnrannsóknin sjálf felur í sér að sofa með hring á fingri sem mælir svefn í 6-7 nætur í byrjun og svo aftur eftir að hafa stundað reglulega öndunaræfingar og djúpslökun í HEIL tímum. Hringurinn safnar gögnum inn á app á vegum svefnrannsóknarfyrirtækisins SleepImage. Þar mun svefnlæknir fara yfir niðurstöður. Hvert og eitt mun fá upplýsingar um eigin svefnniðurstöður afhentar í lok rannsóknarinnar og ef niðurstöður leiða í ljós að þörf er á frekari aðstoð við að auka svefngæði og/eða líðan þá mun hjúkrunarfræðingur skólans bjóða upp á frekari aðstoð eða leiða viðkomandi áfram í réttan farveg.

Til að rannsaka kvíða, þunglyndi og lífsgæði verða lagðir fram spurningalistar sem allir þátttakendur svara í upphafi og lok rannsóknarinnar.

Þriðjudaginn 26. september kemur svo Rúna Sif Stefánsdóttir í heimsókn í MA og VMA og verður með fyrirlestur um svefn og góðar svefnvenjur.

Ingibjörg Magnúsdóttir heldur utan um þessa svefnrannsókn og sér um slökunar- og öndunaræfingarnar.

Og þess má geta að Inga fer í október til Rio de Janeiro í Brasilíu á alþjóðlega svefnráðstefnu og kynnir þar rannsóknina í MA: A pilot study to evaluate efficacy of brief behavioral and sleep hygiene education with mindfulness intervention on sleep duration, timing, quality, anxiety, depression, and quality of life in adolescents