Eftirfarandi jólahugleiðing birtist í skólablaði MA þann 22. desember 1939.

Naumast er hægt að kalla það jólalegt núverandi ástand í heiminum, og væri ég jólin, veigraði ég mér sannarlega við að koma. En sem betur fer fyrir mannkynið er ég ekki jólin; og nú eru þau að koma, því að þau grundvallast ekki á mínum ragmennskulega hugsunarhætti. Grundvöllur þeirra er styrkari en svo. Öll þekkjum við uppruna, sögu og tilgang jólanna, vitum að þau eru fyrst og fremst fæðingarhátíð frelsarans og honum til minningar. En sá sorglegi sannleiki er, því miður, óhrekjandi, að fæstir fagna jólunum vegna þess. En þeir fagna þeim þó samt, vilja alls ekki án þeirra vera. Tilvera jólanna hlýtur því jafnframt að byggjast á einhverju öðru. Og þetta eitthvað á svo sterk ítök í sálu hvers einasta manns að jafnvel þótt hann segist vera trúlaus, bindur það hann þó svo sterkum böndum við jólin, að jafnvel þótt hann reyni að fela sig fyrir þeim flýja þau eða loka úti, er hann alltaf tengdur þeim og verður það svo lengi sem honum tekst ekki að flýja burtu frá sjálfum sér. En þá er hann glataður. Sumir halda því eflaust fram, að þetta eitthvað sé betri matur, fallegri föt, lausn skyldustarfa vorra og sú hvíld, sem jóladagarnir veita o.s.frv. En þetta er hlægilegt, sjálfblekking. Hversvegna viljum við t.d. öll fara heim i jólaleyfinu? Er það vegna þess, að maturinn sé betri, fötin fallegri þar en hér? Nei. Það er vegna þess, að jólin eru okkur heilög, og við njótum hvergi hreinleika þeirra og hamingju sem heima hjá ástvinunum.

"Gleðileg jól". Þau orð hljóma aldrei eins og af vörum þeirra, því að þau eru tengd endurminningu þeirra stunda, sem við í barnslegri einfeldni og hreinleik höfum notið meðal þeirra.

Ég hefi séð jólagleði ríkra og fátækra barna. Hún er alveg eins. Ég hefi séð skorpin og skinin andlit gamalmennanna ljóma af gleði á jólunum. Ég hefi séð óvini kyssast þá. Ég hefi séð þrekmikla menn, sem sögðust vera trúlausir, gráta á jólunum. Allir verða að viðurkenna, að vald þeirra og áhrif eru undraverð, og að þetta eitthvað hlýtur að vera æðra fötum, mat og drykk. Það er endurminningarnar, þráin eftir sannleikanum, hreinleikanum og hamingjunni. Kynslóð eftir kynslóð hefir fæðzt og leitað sannleikans, en ekki fundið hann, reynt að varðveita hreinleikann, en glatað honum, elt hamingjuna, en aldrei höndlað hana og horfið síðan. En sannleikurinn, hreinleikinn og jafnvel hamingjan er þó til: Hreinleikurinn hjá bernskunni, sannleikurinn í kristindómnum og hamingjan í því hvortveggju. En jólin eru sýnilegur ávöxtur þessarar þrotlausu baráttu og endalausrar leitar þeirra að hamingjunni, því að þau eru sá tími, er fegurst er hugsað og bezt gert, þegar mennirnir standa næstir sínum glataða hreinleika, næstir guði - eru hamingjusamastir.

Því hefir verið spáð, að íslenzku þjóðinni muni auðnast, þrátt fyrir smæð hennar, að leysa af hendi geysilega mikilsvert hlutverk í þágu mannkynsins. Hver veit nema það sé að leiða það úr myrkri spillingarinnar inn í ljós sannleikans? Við höfum engan herafla, og það er heldur ekki rétta leiðin. En hervæðumst hreinleikanum, leggjum rækt við kristindóminn, því að það er leiðin til sannleikans og hamingjunnar, þá mun sigurinn okkar, þá mun ómur jólabjöllunnar aldrei deyja út, þá mun mannkynið höndla hamingjuna - og hver getur kosið sér göfugra hlutverk?

Leó Júlíusson

 

Heimild: Muninn 13. árgangur, 2. tbl.