Syngdu mig heim er dagskrá í tilefni aldarafmælis Jóns frá Ljárskógum, bassa í MA kvartettinum fræga og vinsæla, en Jón var líka prýðilegt ljóðskáld og orti meðal annars nokkur ljóðanna sem hann söng með félögum sínum, Steinþóri og Þorgeiri Gestssonum og Jakobi Hafstein. Dagskráin Syngdu mig heim verður flutt á Sal í Gamla skóla á Akureyrarvöku á laugardaginn og hefst klukkan 18.00. Gengið er inn um gamla aðalinngang Gamla skóla og dagskráin fer fram á Sal, þar sem kvartettinn söng á sínum tíma. Þessi dagskrá um Jón frá Ljárskógum var frumflutt í Vídalínskirkju í Garðabæ 26. mars í vor fyrir fullu húsi af fólki og við afar góðar undirtektir. Síðar var hún flutt á Selfossi og verður á Hvammtanga nú á föstdagskvöld og svo á Akureyri á laugardag, sem fyrr segir.

Sigurður Helgi Oddsson píanóleikari hefur í sagnfræðinámi sínu rannsakað sögu MA-kvartettsins og fléttar inn í dagskrána forvitnilega hluti úr rannsókn sinni jafnframt því sem hópur tónlistarmanna flytur ljóð og lög, meðal annars syngur kvartett ungra söngvara nokkur lög sem vinsæl voru í flutningi MA-kvartettsins forðum. Flytjendur auk Sigurðar Helga eru Unnur Birna Björnsdóttir, Una Dóra Þorbjörnsdóttir, Unnur Helga Möller, Guðmundur Davíðsson, Magnús Pétursson, Reynir Bergmann Pálsson og Björn Bjarnsteinsson.

Jón Jónsson frá Ljárskógum fæddist 28. mars. 1914. Þekktastur er hann fyrir söng sinn í MA-kvartettinum sem starfaði frá 1932 í áratug og söng sig inn í hjörtu manna um allt land. Jón lést 1945, en hafði þá gefið út eina ljóðabók, Syngið strengir, árið 1941, en fleira var gefið út af verkum hans að honum látnum. Hann gerði nokkra texta við lög sem kvartettinn söng en meðal annarra þekktra söngljóða hans má nefna Sestu hérna hjá mér, Húmar að kveldi, Ó, Súsanna, og Blærinn í laufi.

Það verður góð stund þegar MA-kvartettsins og Jóns frá Ljárskógum verður minnst í MA - þar sem þetta allt saman hófst. Missið ekki af þessum viðburði.