Þessi misserin eiga sér stað talsverðar breytingar á skólalífinu í Menntaskólanum á Akureyri. Sé á heildina litið hafa þær gengið vel.

Menntaskólinn á Akureyri hefur á undanförnum áratugum þróast og breyst og leitast við að vera í takti við tímann en standa þó á fornum merg, verið framsækinn og forn í senn. Mestar eru þó breytingarnar sem standa yfir þessi misserin. Þar er annars vegar um að ræða styttingu námstíma til stúdentsprófs og þar með nýja og breytta námskrá, og hins vegar færslu skólaársins til samræmis við aðra framhaldsskóla landsins.

Stytting námstíma til stúdentsprófs

Í skólanum er lögð áhersla á sveigjanleika og meðal annars í því skyni er í nýrri námskrá boðið upp á að ljúka stúdentsprófi á þremur, þremur og hálfu eða fjórum árum. Upphaflega var ætlunin að stúdentspróf úr MA yrði 210 einingar, tíu fleiri en lágmarkið, en í ljós kom snemma að álag á nemendur yrði með því of mikið og þess vegna var horfið frá því þegar á fyrsta vetri. Sömuleiðis reyndist breyting á lengd kennslustunda úr 40 í 50 mínútur þyngja um of álag á nemendur og lengja skóladag, svo því var breytt til fyrra horfs.

1. og 2. bekkurHaustið 2016 hófu fyrstu nemendur nám í þriggja ára kerfi við MA og nú um annaskil eru þeir nemendur því hálfnaðir á leið sinni að stúdentsprófinu. Annar hópurinn hóf nám síðastliðið haust. Reynt hefur verið að skipuleggja námið með þeim hætti að nemendur geti að einhverju leyti stjórnað námshraðanum, sem fyrr segir, þrátt fyrir að bekkjarkerfinu sé haldið og bekkir fylgi alla jafna sömu stundaskrá. Nemendum hefur gengið vel í nýrri námskrá, ef hægt er að draga ályktanir af stuttri reynslu. Brottfall fyrstubekkinga að loknu fyrsta ári var afar lítið. Meðaleinkunn núverandi fyrstubekkinga var ívið hærri en í fyrra, mögulega vegna þess að vinnuálag er minna, skóladagurinn styttri og aðeins færri einingar. Mjög fáir nemendur hafa hætt á fyrsta ári. Á öðru ári var námsárangur nemenda nú í heildina góður, lítið um brautaskipti og brottfall afar lítið. Fall í einstaka áföngum var ekki meira en verið hefur. Verið er að skoða hvernig draga má úr því falli. Þegar á allt er litið má draga þá ályktun að nemendum gangi ekki verr í nýrri námskrá en þeirri eldri.

Nú lítur út fyrir að meirihluti nemenda í nýju kerfi muni brautskrást eftir þrjú ár, þannig að 2019 verður fjölmennur hópur nemenda brautskráður, fjórðubekkingar eftir eldri námskrá og þriðjubekkingar eftir þeirri nýju

Að ýmsu er að hyggja þegar tveir árgangar eru á lokaári og því er þegar hafinn undirbúningur fyrir næsta vetur hvað varðar ýmis sameiginleg mál árganganna, svo sem hefðir kringum dimissio og brautskráningu, árshátíð, útskriftarferð og fleira. Stjórnendur héldu fund með fulltrúum úr öðrum og þriðja bekk í síðustu viku til undirbúnings fyrir skólafund með árgöngunum, sem haldinn var 1. febrúar og þessi mál voru til umræðu, eins og sjá má hér í annarri frétt. Stefnt er að því að hafa eina útskrift vorið 2019, en þó þannig að hvor árgangur fái notið sín, hvað varðar verðlaun og viðurkenningar.

Færsla skólaársins

Menntaskólinn á Akureyri hefur um langt árabil verið einn íslenskra framhaldsskóla með gamla tímatalið, sem upphaflega stóð frá októberbyrjun fram að miðjum júní. Í gegnum tíðina hefur skólaárið jafnt og þétt verið lengt og skóli hafist fyrr en áður. Eins og kunnugt er, voru haustannarpróf yfirstandandi skólaárs í fyrsta sinn fyrir jól. Hægt var að færa skólaárið fram um sjö daga og byrja um mánaðamótin ágúst-september, en enn á eftir að færa það fram um fimm daga svo það náist að ljúka haustönninni alveg fyrir jól (sjúkra- og endurtökupróf, uppgjör og undirbúningur voru að þessu sinni eftir áramót). Ekki lítur þó út fyrir að það verði mögulegt næsta ár og skóli verður því settur aftur um mánaðamót ágúst-september.

Skólafundur

Engar kannanir hafa verið gerðar á því hvernig nýbreytnin, að hafa prófin

í desember í stað janúar, féll nemendum og starfsfólki í geð en á heildina gekk þetta allt vel. Álag var vissulega mikið rétt fyrir jól, próf voru á 6 dögum og sumir bekkir í mörgum prófum þá daga, allt til 21. desember. Þessi tilfærsla skólaársins auðveldar allt samstarf milli skóla og nú á vorönninni er vísir að sameiginlegum valáföngum skólanna, en nokkrir nemendur MA sækja áfanga í sjónlistum í VMA og nemendur þaðan eru í áfanga í eðlisfræði á þriðja ári í MA.

Margir, sérstaklega gamlir stúdentar, hafa spurt um skólaslit, hvort þau færist til með skólaárinu. Ekki er annað sýnilegt en að Menntaskólinn á Akureyri haldi í þá gömlu hefð að slíta skóla á þjóðhátíðardaginn.

Nám og félagsstarf

Félagslíf hefur ævinlega verið mjög stór þáttur í skólastarfinu í MA. Margir höfðu af því áhyggjur að stytting námstíma til stúdentsprófs, styttri vera í MA, myndi hafa mikil áhrif á félagslífið. Þau kurl eru ekki öll komin til grafar, en nemendur keppast við að fella hefðir og ómissandi atriði félagsstarfsins að nýju kerfi. Sumum nemendum sem nú eru hálfnaðir að stúdentsprófinu í nýju kerfi þykir þó skuggalega stutt til endalokanna, ef svo má segja. Stjórn skólafélagsins Hugins hefur unnið gott starf við að endurskipuleggja dagskrá félagsstarfsins og fært atburði til í því skyni að jafna álagið í félagsmálunum. Stundum verður það þó afar

Í Ljóðhúsi

mikið, til dæmis þegar á sama tíma eru Söngkeppni MA, æfingar og sýningar Leikfélags MA, Gettu betur o.s.frv. Þess vegna seinkaði skólafélagsstjórnin Ratatoski, sem eru uppbrotsdagar í stundaskrá með fjölbreyttum námskeiðum og fyrirlestrum í umsjá og skipulagi nemenda, um heilan mánuð.

Þessar breytingar í skólanum ganga vel og reynt er að sníða af vankanta jafnóðum og þeir verða. Það má því segja að allt sé á góðu róliháva, en þó er aldrei fyrir það skotið loku að einhverjir séu ekki fullkomlega sáttir á átta hundruð manna vinnustað. Framundan eru spennandi tímar og með samstilltu átaki nemenda, forráðamanna þeirra og skólans verður leiðin greið til framtíðar. Þess vegna er afar mikilvægt að allir þessir aðilar tali saman og vinni saman. Það verður spennandi að sjá hvernig sveigjanlegur námstími til stúdentsprófs reynist nemendum þegar kerfið er komið í fullan gang og hvort og hvenær skólaárið verður fært til samræmis við aðra framhaldsskóla og álag á námsönnum jafnað.

Og framtíðin er handan við hornið.