Orðið mentor er alþjóðlegt og er notað um leiðbeinanda sem aðstoðar yngri, óreyndari aðila við að víkka sjóndeildarhringinn. Mentorverkefnið Vinátta byggir á þeirri hugmyndafræði að samskipti barns og mentors séu jákvætt innlegg í líf barnsins því mentorinn verði barninu fyrirmynd og veiti því stuðning. Tengslin sem myndast milli mentors og barns geti því bætt við möguleika barnsins við mótun sjálfsmyndar sem komi fram m.a. í auknum námsáhuga og árangri auk aukinnar lífsleikni. Þessi tengsl skapar mentorinn fyrst og fremst með því að skipuleggja uppbyggjandi og skemmtilegar samverustundir í samráði við barnið og foreldra þess. Áhersla er lögð á gagnkvæman ávinning og hagsmuni samfélagsins í heild af því að börn og ungmenni kynnist og læri af aðstæðum hvers annars.

Í mentorverkefninu Vináttu eru gerðar kröfur til nemenda um að þeir setji sér skýr markmið, sýni frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum og séu skapandi í hugsun. Kennarinn hefur leiðbeinandi hlutverk sem felst í að leiða nemendur áfram, byggja upp rétt andrúmsloft þar sem ríkir gagnkvæm virðing, traust og stuðningur.

 

Markmið áfangans er að nemendur:

  • Vinni að velferð barna og öðlist víðtæka reynslu í samskiptum við börn

  • Auki skilning á stöðu sinni og annarra í samfélaginu

  • Fái tækifæri til að verða fyrirmynd og jákvætt afl í lífi grunnskólabarns

  • Fái þjálfun í skráningu og meðferð trúnaðarupplýsinga

  • Sýni sjálfstæði í vinnubrögðum

 

Ýmsar gagnlegar upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðunni verkefnisins www.vinatta.is, mikilvægt er að skoða síðuna mjög vel.

 

Vinnulag:

Nemendur (mentorar) verja þremur stundum á viku með grunnskólabarni í 4. bekk.

Nemendur skila dagbókum þar sem samvistir nemenda og barna eru skráðar sem og mat nemenda á því hvernig samskiptin ganga (trúnaðarupplýsingar).

Nemendur mæta á sameiginlega fundi með öðrum mentorum á Akureyri (upphafsdagur, óvissufundur, jólaföndur, lokahátíð). Upplýsingar um þessa viðburði eru sendar í tölvupósti til nemenda.

Nauðsynlegt er að fylgjast vel með tölvupóstinum sínum!

 

Námsmat:

Samvera með grunnskólabarni 3 klukkustundir á viku 50%

Dagbækur 20%

Ferilmappa 20%

Viðvera og þátttaka í einstaklings- og hópfundum 10%

Nemendur þurfa að standast alla ofangreina þætti til að ljúka námskeiðinu.

 

Námsgögn:

Heimasíða mentorverkefnisins Vináttu, www.vinatta.is og efni frá kennara.