Grunnþættir náms í Menntaskólanum á Akureyri eru sem hér segir:

Læsi, tjáning og samskipti á íslensku:

Í skólanum er mikið símat og áhersla lögð á vinnu nemenda þar sem reynir á alla þætti læsis, tjáningar og samskipta nemenda, t.d. í alls kyns verkefnavinnu og félagslífi. Má þar nefna kynningar nemenda á verkefnum sínum, samræður í para- og hópavinnu, umræður, fjölbreyttan lestur og ritunarverkefni. Nemendur fá þjálfun í að svara spurningum á málefnalegan hátt og að rökstyðja skoðanir sínar og niðurstöður í ræðu og riti. Nemendur æfast í lestri ólíkra texta í öllum námsgreinum. Með þjálfun, stíganda í námi og sérhæfingu verður orðaforði nemenda fjölbreyttari og málið blæbrigðaríkara.

Læsi, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum:

Nemendur eru hvattir til að tjá sig á þeim erlendu tungumálum sem þeir leggja stund á. Þeir fá fjölbreytta texta til að vinna með, tjá sig bæði munnlega og skriflega um innihald þeirra og auka orðaforða sinn um leið. Í tungumálanámi er leitast við að veita nemendum innsýn í ólíka menningarheima og siði sem einkenna viðkomandi málsvæði. Í mörgum öðrum greinum en tungumálum kynna nemendur sér námsefni og nýta sér heimildir á erlendu tungumáli og fá þannig þjálfun í að lesa viðkomandi fagmál. Skólinn leitast við að taka þátt í samskiptum við skóla og skyldar stofnanir erlendis þannig að nemendur fái tækifæri til að taka þátt í erlendum samstarfsverkefnum.

Læsi, tjáning og samskipti um tölur og upplýsingar:

Mikið reynir á talna- og upplýsingalæsi nemenda í mörgum áföngum brautarinnar. Þar eru gerðar kröfur um vinnubrögð sem undirbúa nemendur fyrir nám á háskólastigi, þ.e. að nemendur séu læsir á upplýsingar úr ólíkum miðlum, geti nýtt sér margvíslega tækni í upplýsingaleit, aflað gagna, flokkað þau og metið upplýsingar á gagnrýninn hátt. Nemendur fá þjálfun í að lesa, meta, túlka og kynna tölfræðilegar og myndrænar upplýsingar.

Námshæfni:

Unnið er að því að efla sjálfstæð vinnubrögð nemenda og gera þá ábyrga fyrir námi sínu. Þeir læra að þekkja styrkleika sína og veikleika og fá aðstoð við að setja sér raunhæf námsmarkmið, forgangsraða verkefnum og skipuleggja tíma sinn. Þeir fá innsýn í mismunandi námsaðferðir og eru hvattir til að tileinka sér markviss vinnubrögð í námi. Nemendur þjálfast í að vinna fjölbreytt verkefni sem reyna á alla grunnþætti námsins. Áhersla er lögð á samvinnu nemenda, að þeir geti tekið tillit til sjónarmiða annarra og metið eigið framlag og annarra. Nemendur læra að takast á við margvísleg verkefni, yfirstíga hindranir og nýta fyrri reynslu, þekkingu og skilning við úrlausn nýrra viðfangsefna. Lögð er áhersla á að nemendur setji sér framtíðarmarkmið sem tengjast námi og störfum.

Skapandi hugsun og hagnýting þekkingar:

Í skólastarfinu nýta nemendur sköpunarkraft sinn á margvíslegan hátt. Þeir vinna fjölbreytt verkefni og skila þeim af sér með ólíku sniði þar sem reynir á frumkvæði og skapandi hugsun, auk þess er ætlast til að nemendur geti miðlað þekkingu sinni og hæfni á skapandi hátt. Farnar eru ýmsar náms- og menningarferðir á vegum skólans sem styrkja þessa þætti. Í félagslífinu öðlast nemendur skilning á tengslum menningar og listar við samfélagið. Nemendur gefa út skólablað, halda úti vefsíðu, setja upp leiksýningar, listsýningar, söngkeppni og ýmsar skemmtanir sem krefjast þess að nemendur sýni frumkvæði, sjálfstæði og skapandi hugsun. Á þennan hátt nýta þeir þekkingu sína til að skapa eitthvað nýtt og draga lærdóm af.

Menntun til sjálfbærni:

Í skólastarfinu er unnið með sjálfbærni með ýmsum hætti. Nemendur nálgast viðfangsefnið út frá eigin persónu, skoða neysluvenjur sínar og áhrif þeirra á umhverfið. Þeir fræðast um samspil lífvera í náttúrunni og söguleg, félagsleg og efnahagsleg áhrif mannsins á náttúruna. Þá læra þeir að orka verður ekki til úr engu heldur umbreytist úr einu formi í annað og hvaða áhrif það hefur á orkubúskap jarðarinnar. Í raungreinum er sjónum beint að auðlindum náttúrunnar og þær takmarkanir sem manninum eru settar í nýtingu þeirra.

Heilbrigði:

Lögð er áhersla á heilsusamlegan lífsstíl, næringu, hreyfingu og geðrækt. Leitast er við að auka vitund nemenda um ábyrgð þeirra á líkamlegri og andlegri heilsu sinni og að þeir taki ábyrga afstöðu til eigin velferðar og heilbrigðis. Að loknu námi þekkja nemendur gildi reglulegrar hreyfingar og hafa tileinkað sér aðferðir í heilsurækt sem leggja grunn að heilbrigðum lífsháttum og jákvæðum samskiptum. Hreyfing fléttast inn í allt skólastarfið, meðal annars með því að halda skólahlaup, íþróttadaga og bekkjakeppni. Við skólann starfar forvarnateymi og félagsmálafulltrúi og er unnið markvisst að fræðslu sem tengist forvörnum sem snúa jafnt að líkamlegri og andlegri heilsu. Markmið slíkrar fræðslu er að nemendur séu meðvitaðir um skaðsemi hvers kyns vímuefna ásamt því að þeir taki ábyrga afstöðu gegn einelti og öðru ofbeldi og hvers konar mismunun. Stuðlað er að góðum skólaanda, samkennd og virðingu fyrir hverjum einstaklingi með öflugu félagslífi, bekkjarfundum, umsjón og námsráðgjöf og áherslu á jákvæð og heilbrigð samskipti

Lýðræði og mannréttindi:

Í skólanum er stuðlað að því að gera nemendur að virkum og ábyrgum þátttakendum í lýðræðissamfélagi. Leitast er við að gefa röddum nemenda vægi í skólastarfinu m.a. með þátttöku í skólafundum, setu í ráðum og nefndum og í innra mati skólans. Í skólanum er starfrækt hagsmunaráð nemenda og skólafélag. Þessi félög eiga fulltrúa í skólaráði og taka þátt í stefnumótun og ákvarðanatöku. Nemendur eru hvattir til að sýna frumkvæði í starfi skólans og taka ábyrga afstöðu til málefna. Þeir vinna ýmis verkefni sem fjalla t.d. um mannréttindi, siðferðisvitund og lýðræði og eru hvattir til umburðarlyndis og virðingar fyrir mismunandi lífsgildum. Nemendur hljóta þjálfun í að setja fram eigin skoðanir og taka þátt í rökræðum og fá þjálfun í að taka gagnrýna afstöðu til álitamála sem eru í brennidepli í samfélaginu. Með virkri þátttöku í skólastarfinu, náminu og með þeim tækifærum sem nemendum bjóðast til áhrifa í félagslífi innan skólans þjálfast þeir í því að vera virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðissamfélagi.

Jafnrétti

Skólastarfið byggir á jafnréttisstefnu sem segir að stuðla skuli að jöfnum rétti og tækifærum allra, óháð kyni, kynhneigð, hvers kyns fötlun, litarhætti, menningu og uppruna. Jafnframt er stefnt að því að allir nemendur eigi jafna möguleika á að njóta eigin hæfileika og þroska þá með því að tryggja þeim viðfangsefni og menntun við hæfi. Lögð er áhersla á að starfið á námsbrautinni stuðli að jöfnum rétti kynja til náms og að nemendur séu hvattir til að velja sér nám eftir áhuga. Með þessu er leitast við að gera nemendur meðvitaða um áhrif fyrirmynda og staðalmynda á eigin ímynd og lífsstíl og að þeir geti myndað sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu. Nemendur vinna ýmis verkefni sem tengjast jafnrétti í víðum skilningi, t.d. fordómum, fjölmenningu, fötlun og trúarbrögðum. Þá læra nemendur að greina áhrif ýmissa þátta á líf einstaklinga og hópa, t.d. stétta, trúarbragða, þjóðernis, litarháttar, búsetu o.fl.