MA á sólríkum sumardegiMenntaskólinn á Akureyri er ein af elstu og helstu menntastofnunum landsins. Hann er ekki einungis gamalgróin stofnun heldur jafnframt nútímalegur skóli í stöðugri þróun. MA var til dæmis í fararbroddi framhaldsskóla að endurnýja námskrá í skólanum samkvæmt framhaldsskólalögum frá 2008 og var einn fárra skóla sem starfaði samkvæmt henni frá 2010. Þá voru teknar upp allmiklar breytingar og nýjungar, meðal annars samþætting nokkurra námsgreina, flestir námsáfangar voru endurnýjaðir og teknar upp fjölbreyttar nýjar náms- og kennsluaðferðir. Þó er þess gætt að skólastarfið standi meira og minna á gömlum merg í anda kjörorða skólans: Virðing, víðsýni, árangur. Enn urðu breytingar á skólafyrirkomulaginu haustið 2016, en þá voru fyrst teknir inn nemendur samkvæmt ákvörðun yfirvalda um að stytta námstíma til stúdentsprófs í 3 ár.

Meginmarkmið skólans er sem fyrr að búa nemendur vel undir háskólanám í lýðræðisþjóðfélagi og koma öllum nemendum til nokkurs þroska. Þetta hefur skólanum auðnast að gera lengi og stúdentar frá MA hafa, eins og kannanir til margra ára hafa sýnt, náð einstaklega góðum árangri í háskólanámi. Nemendur MA eru 520-550 á ári hverju og brautskráðir stúdentar 17. júní eru jafnan á bilinu 130-160 talsins.

Bekkjaskóli – námstími

Menntaskólinn á Akureyri hefur frá upphafi verið bekkjaskóli og er það enn, en frá því á áttunda áratug liðinnar aldar hefur náminu verið skipt í áfanga eins og í bekkjalausum skólum. Bekkirnir annars vegar og heimavistin hins vegar hafa verið grundvöllur að samheldni í skólasamfélaginu og eru snar þáttur í þeirri órofa tryggð sem nemendur sýna skólanum.

Námstími til stúdentsprófs var lengst af 4 ár, fjórir bekkir. Sem svar við þeirri kröfu að nemendur geti lokið stúdentsprófi 19 ára gamlir hefur skólinn tvær leiðir. Annars vegar að taka við nemendum beint úr 9. bekk grunnskóla á svokallaða hraðlínu, þar sem þeir hafa setið í 4 ár og lokið prófi ári yngri eða tveimur en aðrir. Haustið 2016 var tekin upp ný skólaskipan vegna styttingar náms til stúdentsprófs. Menntaskólinn á Akureyri skipar náminu í skólanum þannig að námslok geti verið sveigjanleg. Nemendum gefst þannig kostur á að velja sér námstíma 3, 3½ eða 4 ár.

Skólinn og hús hans

Skólalóð MAMenntaskólinn á Akureyri á nánustu rætur að rekja til hins endurreista norðlenska skóla á Möðruvöllum í Hörgárdal, sem stofnaður var 1880, en hann var arftaki stólsskólans eða dómsskólans á Hólum í Hjaltadal. Sá skóli mun hafa verið stofnaður í upphafi biskupstíðar Jóns helga Ögmundarsonar árið 1106 og stóð allt til ársins 1801, en þá voru biskupsstólarnir á Hólum og í Skálholti lagðir niður og allt starf þeirra flutt til Reykjavíkur.

Norðlenskur skóli var endurreistur 1880, en þá var settur gagnfræðaskóli á Möðruvöllum í Hörgárdal, en bændaskóli á Hólum í Hjaltadal, hinu forna skóla- og biskupssetri, var stofnaður 1882. Eftir að skólahús á Möðruvöllum brann árið 1902 var skólinn fluttur til Akureyrar. Gamli skóli, hið mikla og fagra timburhús á Brekkubrúninni, var reistur sumarið 1904, íþróttahúsið ári síðar og hús Heimavistar á árunum 1946-1956. Haustið 1969 var tekið í notkun kennsluhús fyrir raungreinar með samkomusal í kjallara, Möðruvellir. Haustið 1996 var síðan tekið í notkun nýtt kennsluhúsnæði, Hólar, með 9 stórum kennslustofum, vel búnu bókasafni og samkomusal, sem gengur undir nafninu Kvosin, og rúmar 600-700 manns í sæti. Sumarið 2003 var svo tekið í notkun á skólalóðinni nýtt heimavistarhús. Þá var stofnað rekstrarfélag um heimavist fyrir nemendur úr báðum framhaldsskólunum á Akureyri, Menntaskólanum og Verkmenntaskólanum, sem hýsir um það bil 300 nemendur í eins og tveggja manna herbergjum.

Gagnfræðaskóli – menntaskóli

MA um 1970Gagnfræðaskólinn á Möðruvöllum var fyrsti gagnfræðaskóli landsins og þar var í upphafi ætlað að kenna verðandi bændum hagnýt fræði. Eftir bruna skólahússins á Möðruvöllum og þegar skólinn var kominn til Akureyrar breyttist nafn hans og varð Gagnfræðaskólinn á Akureyri.

Fljótt var mikil áhersla lögð á kennslu í fræðum á borð við íslenskt mál og náttúruvísindi og snemma kom upp sú skoðun að hinn norðlenski skóli yrði gerður að stúdentaskóla. Á árunum eftir 1920 tók sú barátta að bera nokkurn árangur, en árið 1924 var byrjað að kenna námsefni til stúdentsprófs. Fyrstu stúdentarnir sem höfðu hlotið menntun sína í hinum norðlenska skóla voru með undanþágu brautskráðir frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1927. Með lögum frá Alþingi árið 1930 var loks kveðið á um að á Akureyri skyldi vera „skóli með fjórum óskiptum bekkjum, er nefnist Menntaskólinn á Akureyri.“ Allar götur síðan hafa stúdentar brautskráðst frá Menntaskólanum á Akureyri og voru 17. júní árið 2014 orðnir 7.770 talsins.

Námið í MA

Í Menntaskólanum er aðstaða góð til náms. Kennt er í bekkjum en námið er áfangaskipt.
Samkvæmt nýjustu námsskrá býður skólinn upp á þriggja ára nám til stúdentsprófs, eða 200 framhaldsskólaeiningar, með valmöguleikum nemenda að taka stúdentspróf á lengri tíma, 3½ eða 4 árum. Námið skiptist í sameiginlegan kjarna, bundið pakkaval og brautarkjarna.

Daglegt starf

Samvinna í námiÁ Hólum, þar sem segja má að hjarta skólans slái ákafast, er Kvosin, þar sem allir nemendur og flestir kennarar eiga leið um og meginhluti félagsstarfsins fer fram, en þar er einnig bókasafn skólans og lesaðstaða fyrir 80 nemendur. Nemendur hafa auk þess lesaðstöðu í kennslustofum skólans utan kennslutíma, fram á kvöld virka daga og á laugardögum. Langflestir nemendur hafa með sér fartölvur og það gera kennarar líka. Í skólanum er mikil verkefnavinna, bæði einstaklings- og hópverkefni, og tölvutækni, hljóðtækni og myndtækni meira og minna notað við efnisöflun og skil. Námsumhverfið Moodle er mikið notað og skólinn hefur samning við Microsoft Office um full afnot af hugbúnaði þess.

Í skólanum var lengst af hefðbundin bekkjakennsla en tímarnir hafa breyst og mennirnir með. Nám og kennsla er með fjölbreytilegu móti, verkefnamiðað, mikil hópvinna auk einstaklingsverkefna, stórra og smárra. Áhersla er á munnleg jafnt sem skrifleg skil á verkefnum, leitarnám og leiðsagnarnám og námsferðir, svo eitthvað sé nefnt.

Námsbrautir fyrr og nú

Í upphafi var ein námsbraut við MA og kallaðist máladeild. Árið 1934 var stofnuð stærðfræðideild en árið 1966 skiptist hún í eðlisfræðibraut og náttúrfræðibraut. Árið 1972 var stofnuð félagsfræðibraut og síðar var tekin upp kennsla á tónlistarbraut í samstarfi við Tónlistarskólann á Akureyri og myndlistarbraut í samstarfi við Myndlistaskólann á Akureyri. Myndlistarbraut hefur verið flutt í Verkmenntaskólann. Að viðbættu þessu var við skólann á árunum 1975-1993 öldungadeild í kvöldskóla og á árunum 1980-1984 var haldið úti kennslu á verslunarbraut í samvinnu við Gagnfræðaskólann á Akureyri. Hvort tveggja varð leyst af hólmi með tilkomu Verkmenntaskólans á Akureyri.

Nöfn á brautum, deildum eða sviðum hafa breyst í tímans rás, en með námskrá frá 2016 eru í skólanum mála- og menningarbraut, félagsgreinabraut, náttúrufræðibraut (sem skiptist á öðru ári í þrjár brautir) og kjörnámsbraut í sviðslistum. Auk þess stunda nemendur nám á kjörnámsbraut (tónlist) í samvinnu við Tónlistarskólann.

Breyttir kennsluhættir

Í Menntaskólanum á Akureyri hefur verið unnið að nýjungum í kennsluháttum og samþættingu námsgreina með samvinnu kennara í ólíkum greinum. Þannig hafa um árabil unnið saman kennarar erlendra tungumála, íslensku, upplýsingatækni og landafræði á ferðamálakjörsviði málabrautar. Þar er námið byggt á stuttum fyrirlestrum, stórum og smáum nemendaverkefnum og einstaklingsbundinni leiðsögn.

Menningarlæsi í námsferð á SiglufirðiÍ fyrsta bekk eru tveir stórir áfangar, náttúrulæsi og menningarlæsi. Helmingur fyrsta bekkjar er í náttúrulæsi á haustönn á meðan hinn helmingurinn er í menningarlæsi og þessu er svo víxlað þegar vorönn tekur við. Fjórir til fimm kennarar kenna á hvoru "læsinu" fyrir sig. Í menningarlæsi er fengist við sögu og samfélagsgreinar ásamt íslensku og upplýsingatækni en í náttúrulæsi landafræði, jarðfræði og ýmiss konar náttúrufræði ásamt íslensku og upplýsingatækni. Hér skiptast á fyrirlestrar með smærri og stærri hópum, bekkjakennsla og mjög mikil og margvísleg verkefnavinna. Samvinna kennaranna er mikil. Þeir eru á þönum við að sinna einstaklingum og smáum hópum og landamerki námsgreinanna verða sífellt lítilvægari. Þessi kennsla hófst haustið 2010 og hefur gengið vel. Einna mest áberandi er hvað nemendur þjálfast í alls kyns vinnuaðferðum, jafnt hópvinnu sem einstaklingsvinnu og verkefnaskilum bæði munnlega og skriflega, en það á eftir að reynast þeim drjúgt í áframhaldandi námi. Þá fara nemendur í náttúrulæsi í námsferð, dagsferð, í Mývatnssveit og nemendur í menningarlæsi í námsferð um söfn á Siglufirði.

Sívaxandi tölvueign nemenda og tölvunotkun hefur á undanförnum árum breytt námi þeirra mikið, en skólinn leitast við að fá nemendur til að temja sér góðar og gagnlegar aðferðir við að nota tölvur og síma á jákvæðan hátt í námi. Skólinn hefur markað skýra stefnu um það og smám saman er verið að innleiða hana.

Nemendur og þjónusta

Kappkostað er að nemendum geti liðið vel í Menntaskólanum á Akureyri og hann hefur lengi verið í fararbroddi skóla um nemendavernd. MA var fyrsti skólinn sem hafði á sínum snærum námsráðgjafa og í hópi fyrstu skóla sem tóku upp öflugt forvarnastarf. Náms- og starfsráðgjafar annast kynningar á skólanum út á við og náms- og kynningarferðir nemenda auk þess að leiðbeina þeim um nám og einkamál svo og námsmöguleika að loknu stúdentsprófi. Við skólann starfar jafnframt sálfræðingur. Þá e hjúkrunarfræðingur til viðtals einn dagspart.

Skólaárið

Skólaárið hefur verið fært til og nú er skóli settur í kringum 20. ágúst. Prófum lýkur í desember, fyrir jólafrí. Vorönn hefst fyrrihluta janúar hefst og lýkur í lok maí. Brautskráning verður sem fyrr 17. júní. Skóla er þá slitið við veglega athöfn í Íþróttahöllinni á Akureyri. Þá um kvöldið er haldin í höllinni hátíðarsamkoma nýstúdenta, vina þeirra og vandamanna, með kvöldverði, skemmtun og dansi.

Sú ríka hefð að tengja brautskráningu þjóðhátíðardeginum 17. júní, sem verið hefur í MA allt frá árinu 1944, á ásamt bekkjakerfi og heimavist drjúgan þátt í því að hafa skapað þau miklu og órjúfanlegu tengsl sem eru milli skólans og gamalla nemenda hans. Hinn 16. júní ár hvert er haldin MA-hátíðin, en þá koma saman í Íþróttahöllinni stúdentar úr flestum árgöngum sem eiga afmæli sem stendur á heilum eða hálfum tug. Þarna eru jafnan saman komnir á bilinu 600 – 800 gestir. Viðlíka fjöldi gesta kemur við í skólanum um miðjan dag 17. júní, en þá er þar opið hús. Þar má sjá marga gamla nemendur rifja upp liðna tíð og vökva lífsblómið með endurminningum. Rækt sú sem gamlir nemendur sýna skólanum er honum ómetanleg.

Starfsfólk

Áður er minnst á traustan og stöðugan hóp kennara skólans en þeir eru á bilinu fimmtíu til sextíu alls. Auk þeirra hefur skólinn á að skipa um það bil tveimur tugum afar góðra starfsmanna, sem eins og kennararnir hafa iðulega mjög langa viðdvöl. Með tilstyrk þessa fólks er í honum afar gott viðhald, þrif og þjónusta við nemendur og kennara og skólinn leggur mikla áherslu á góða umgengni og snyrtilegt útlit.

Lífið í skólanum

Félagslíf í Menntaskólanum á Akureyri hefur áratugum saman verið talið afar fjölskrúðugt, enda hafa skólayfirvöld gætt þess vel að sameina í skólalífinu hefðbundið nám og fjölbreytt, heilbrigt tómstundastarf. Um árabil hefur til dæmis árshátíð MA verið fréttnæm samkoma, þar sem meira en 800 ungmenni hafa ásamt kennurum, starfsfólki og gestum haldið glæsilega hátíð með mat og skemmtiatriðum svo og dansleik, þar sem engum dettur í hug að vera undir áhrifum neinna fíkniefna. Þetta er án efa fjölmennasta vímulaus hátíð ungmenna sem haldin er á landinu. Nemendum er í mun að rækja þá hefð að félagsstarf á vegum skólans og í húsum hans sé samkvæmt ströngustu reglum um bindindi, en slíkur metnaður er hollur þegar frá líður.

Út í heim

FER-nemendur búast til brottfararMenntaskólinn á Akureyri hefur um árabil verið í samskiptum við skóla í öðrum löndum. Hann hefur tekið þátt í samskiptum og nemendaferðum til Danmerkur, Belgíu og Þýskalands, svo dæmi séu tekin. Kennarar hafa átt í samskiptum við samverkamenn í fjölmörgum Evrópulöndum og á Norðurlöndunum og bandarískur skóli kemur reglulega í nemendaheimsóknir í MA. Boðið er upp á valáfanga, svokallaðar borgarferðir, til London, Parísar og Berlínar. 

Skólinn var þátttakandi í Erasmus+ verkefni ásamt skóla í Budapest 2022-2023. Verkefnið kallaðist „Supporting Students and Educators Mental and Physical Well-being in Challenging Times“. Verkefnið hófst að vori 2022 og því var ætlað að finna og hanna átta bjargráð sem nýst geta nemendum og starfsfólki við að bæta andlega og líkamlega heilsu og vellíðan. Slökunarherbergið Friðheimar varð til út frá þessu verkefni einnig svefnrannsókn og sjálfshjálparefni fyrir nemendur.

.

.Félagsstarf

Í KvosinniInnan skólans er eitt nemendafélag, Huginn, skólafélag Menntaskólans á Akureyri. Á snærum þess er fjöldi annarra félaga. Aðstaða til félagsstarfs er góð. Skólafélagið hefur til umráða nokkur herbergi í Möðruvallakjallara auk hins mikla salar í Kvosinni, en þar eru hljómbúr og tækjageymsla. Þá er á Hólum sölubúð til ágóða fyrir svonefnda útskriftarferð. Auk þess sem haldnar eru kvöldvökur, tónleikar, söngkeppni og margt fleira í Kvosinni taka nemendur þátt í félagsstarfi á landsvísu og keppni við félaga sína í öðrum skólum. Reglulega er keppt í íþróttum innan skólans og á framhaldsskólamótum. Nemendur MA hafa um árabil tekið þátt í spurningakeppninni Gettu betur og þrívegis unnið þá keppni. Þá hafa nemendur tekið þátt í ræðukeppni Morfís og unnið þar tvívegis. Einnig í keppninni Leiktu betur og Boxinu. Þá hafa nemendur um árabil tekið þátt í landskeppni í efnafræði, eðlisfræði og stærðfræði og staðið sig oft með ágætum og verið í olympíuliðum landsins í þessum greinum. Eins hafa nemendur staðið sig vel og iðulega unnið til verðlauna og utanlandsferða í þýskuþraut svo og í enskri ræðukeppni og smásagnakeppni á ensku. Hið gamla íþróttahús MA er einnig mjög mikið notað til félagsstarfs utan kennslustunda, bæði til líkamsræktar og sem æfingahúsnæði fyrir stórar æfingar Leikfélags MA.

Skólinn í skólabænum Akureyri

Lengi hefur Akureyri verið kölluð skólabærinn Akureyri og það var ekki síst vegna Menntaskólans á Akureyri og þess bæjarbrags sem skólinn skapaði löngum. Hann mótaði sér frá upphafi sérstöðu og nemendur frá honum báru nafn hans hátt. Í upphafi var þeim í mun að sanna að þeir stæðu að minnsta kosti jafnfætis þeim sem brautskráðust úr Reykjavíkurskóla, það væri líka hægt að menntast og verða gagnfræðingur eða stúdent utan Reykjavíkur. Enn ríkir metnaður í skólanum og meðal nemenda hans, enda hafa þeir fram á þennan dag sýnt og sannað að Menntaskólinn á Akureyri er góður skóli og gefur af sér góða stúdenta sem ná framúrskarandi árangri í háskólum heima og erlendis.

Akureyri hefur á tiltölulega stuttum tíma breyst úr miklum iðnaðarbæ með einum stórum skóla í að vera umtalsverður skólabær með öllu því er slíkan bæ prýðir. Auk Menntaskólans á Akureyri er annar framhaldsskóli, Verkmenntaskólinn á Akureyri, sem býður jöfnum höndum upp á bóklegt nám og verklegt nám ásamt styttri námsbrautum, og Háskólinn á Akureyri, sem getur sér gott orð meðal háskóla á Íslandi og er í miklum samskiptum við erlenda skóla. Stjórnendur og starfsmenn MA áttu þátt í að móta starf og stefnu beggja þessara skóla og samstarf er nokkurt milli þeirra. Þar má geta samnings MA og VMA um heimavistir fyrir nemendur og nokkurt samstarf nemenda skólanna í félagslífi. Þá hafa nokkrir kennarar Háskólans verið fyrrum menntaskólakennarar og algengt að kennarar MA séu stundakennarar þar. Til samans eru nemendur þessara þriggja skóla nálægt fjögur þúsund og gefur auga leið að bæjarfélagið hefur af þeim tekjur svo nemur hundruðum milljóna króna á ári hverju.

Mjög mikið og vaxandi menningarlíf og gríðarlega mikil og vönduð aðstaða til íþrótta auk framúrskarandi sjúkrahúss og heilsugæslu eru traust umhverfi skólabæjarins Akureyrar, auk þess sem leik- og grunnskólar hafa fyrirmyndir og keppimörk í framhaldsskólunum og háskólanum.

Landsmenntaskóli

Frá upphafi hafa nemendur Menntaskólans á Akureyri, áður Gagnfræðaskólans á Möðruvöllum og Gagnfræðaskólans á Akureyri, verið úr öllum landsfjórðungum. Einkenni skólans er meðal annars heimavist þar sem saman kemur fólk úr ólíkum héruðum með ólíkan uppruna og skapar á heimavistinni nýtt samfélag með blöndu úr öllum þessum straumum. Stundum hafa lög kveðið svo á að nemendur ættu að sækja skóla í heimabyggð sinni, en sókn eftir því að komast í MA hefur þó ævinlega verið mikil. Þróunin hefur þó orðið í þá átt að Akureyringar og nemendur af norðanverðu landinu eru langflestir. Það hefur jafnan verið stefna skólans og er enn að vera landsmenntaskóli, sem geti þjónað nemendum hvaðan sem þeir koma af landinu. Eins hefur farið í vöxt að skólinn taki við nemendum sem hafa búið erlendis og lítt eða ekki sótt íslenska skóla.

Þessi gamli skóli, sem getur á góðum degi rakið sögu sína þúsund ár aftur í tímann, stefnir ótrauður inn í framtíðina með öllu því góða sem hún hefur í boði.

Í apríl 2015, uppfært í ágúst 2017
svp