Nemendum í Menntaskólanum á Akureyri ber að sækja allar kennslustundir og koma stundvíslega til kennslu.
Mæting nemenda er skráð í Innu og er aðgengileg nemendum og forráðamönnum ólögráða barna. Inna sýnir annars vegar raunmætingu nemandans, það er hvaða tíma hann hefur sótt og hins vegar mætingu þegar veikindi hafa verið dregin frá.

Skólasókn (raunmæting og mæting að teknu tilliti til veikinda) er birt á stúdentsskírteini nemenda.

Leyfi frá skóla - umsóknarblað

Umsóknarblað fyrir leyfi

Gert er ráð fyrir að nemendur sem þurfa að sinna erindum utan skóla geri það ekki á skólatíma.

Lögráða nemendur og forráðamenn ólögráða nemenda geta sótt skriflega um leyfi til skólameistara eða aðstoðarskólameistara ef hann þarf að vera í burtu dag eða lengur. Nemandi fær skráðar fjarvistir þá daga sem hann er í leyfi en með skýringum. Umsóknarblað fyrir leyfi er hér (einnig hægt að fá það í afgreiðslu skólans).

Skilyrði fyrir leyfisveitingu:

Nemandi mæti að öðru leyti vel í skólann

Nemandi geri sér grein fyrir skyldum sínum og ábyrgð ef hann þarf að vera fjarverandi, meðal annars ræði við kennara fyrirfram ef leyfið lendir á verklegum tímum og verkefnaskilum


Leyfi vegna íþrótta

Fjarvera íþróttafólks á námstíma, vegna keppnis- og/eða æfingaferða  reiknast ekki inn í skólasókn þeirra. Þjálfarar geta óskað eftir leyfi og forráðafólk ólögráða nemenda. 

Veikindi

Ólögráða nemendur:

Forráðamenn ólögráða nemenda þurfa að tilkynna veikindi nemenda fyrir kl. 10 á morgnana, helst með því að skrá þau í Innu en einnig má senda tölvupóst (ma@ma.is) eða hringja í síma 455-1555 ef Inna er ekki aðgengileg.

Skólinn áskilur sér rétt til að krefjast þess að vottorði sé skilað, t.d. ef fjarvistir nemenda vegna veikinda eru miklar.

Lögráða nemendur:

Nemendur geta tilkynnt veikindi fyrir kl. 10 á morgnana með því að senda tölvupóst (ma@ma.is). Foreldrar lögráða nemenda geta einnig tilkynnt veikindi á sama hátt og um ólögráða nemendur er að ræða.

Veikindi í prófum

Afar mikilvægt er að tilkynna veikindi áður en próf hefjast. Ef um próf í próftíð í lok annar er að ræða þarf að hringja í afgreiðslu skólans 455-1555 eða senda póst á afgreidsla@ma.is. Sérstök sjúkrapróf verða þá auglýst. Einnig þarf að tilkynna veikindi ef eru próf/verkefni á önninni og nemandi þarf að hafa samband við kennara eins fljótt og auðið er varðandi möguleika á sjúkraprófi/verkefni. Skólinn getur óskað eftir því að nemendur skili inn vottorði vegna veikinda í prófum. 

Símat og vinnueinkunn

Að jafnaði gilda sömu reglur um skólasókn í símatsáföngum og öðrum áföngum, en kennurum er heimilt að setja strangari skólasóknarreglur enda skiptir þátttaka og viðvera nemenda miklu í slíkum áföngum.

Sérstakar reglur gilda um vægi skólasóknar í einkunn fyrir íþróttir.

Ábyrgð nemenda

Nemendum ber sjálfum að fylgjast með skólasókn sinni í Innu. Ef nemandi þarf að vera mikið frá vegna íþrótta eða leyfa ber hann ábyrgð á því að fylgjast með hvað fram fer í kennslu á þeim tíma. Það sama á við um nemendur sem eru frá vegna skammvinnra veikinda. Nemendur sem glíma við samfelld eða erfið veikindi hafa samband við námsráðgjafa.

Skráning fjarvista

Í upphafi hverrar kennslustundar hefur kennari nafnakall og færir fjarvistir. 

Ef nemandi er hjá námsráðgjafa á kennslutíma skráir námsráðgjafi mætingu fyrir þann tíma.

Kennara er heimilt að gefa nemenda fjarvist að gefnu tilefni, t.d. fyrir að spilla vinnufriði eða fyrir aðra slæma hegðun og þátttökuleysi.

Nemendur sem eiga við sjúkdóma að stríða eða búa við aðstæður sem geta haft áhrif á skólasókn þeirra, leggja fram gögn um slíkt í upphafi annar, og/eða þegar slíkar aðstæður koma upp, hjá námsráðgjafa eða aðstoðarskólameistara. Hægt er að sækja um það að í slíkum tilvikum sé skólasóknar ekki getið á námsferli.

Eining fyrir skólasókn

Hægt er að fá einingu fyrir skólasókn á hverri önn ef nemandinn hefur að lágmarki 95% skólasókn (raunmæting) yfir önnina.

Brot á reglum um skólasókn

Nemendur geta fylgst með skólasókn sinni í Innu. Á fjögurra til sex vikna fresti er mætingayfirlit tekið og nemendum undir lágmarksmætingu send viðvörun eða áminning. Ef mæting nemanda er komin undir 90% telst hann vera kominn undir lágmarksmætingu.

Heimilt er að vísa nemanda tímabundið úr skóla, bæti hann ekki ráð sitt en megináherslan er lögð á að fá nemendur til að bæta mætingu sína og halda áfram í skólanum. Fjarvistauppgjör eru tekin u.þ.b. þrisvar á önn og nemanda og forráðafólki sendar upplýsingar um stöðu nemandans ef hann er undir viðmiðunarmörkum. Námsráðgjafar, stjórnendur eða umsjónarkennarar ræða við nemendur í kjölfarið. 

Ef nemandi er meira en eina önn undir viðmiðunarmörkum án skýringa getur það leitt til þess að hann verði ekki innritaður næstu önn.

Umsjón með skólasókn

Aðstoðarskólameistari hefur yfirumsjón með skólasókn nemenda.
 Nemendur hafa aðgang að upplýsingum um skólasókn sína í nemendabókhaldskerfi skólans Inna.is. Kennarar skrá fjarvistir í síðasta lagi í lok hverrar kennsluviku.