Í reglugerð nr 654 frá árinu 2009 er kveðið á um rétt nemenda í framhaldsskólum sem hafa annað móðurmál en íslensku, eða hafa dvalist langdvölum erlendis og hafa litla kunnáttu í íslensku, til kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Skulu framhaldsskólar setja sér móttökuáætlun fyrir þessa nemendur.

Í Menntaskólanum á Akureyri er bekkjakerfi.  Nemendur með annað móðurmál en íslensku stunda íslenskunám með sínum bekk eftir því sem kostur er og fá sérstakan stuðning íslenskukennara. Markmiðið er að efla málskilning nemenda og færni þeirra í notkun málsins í ræðu og riti.  Hér er stuttlega lýst þeim úrræðum sem í boði eru í skólanum.

Kynning

Foreldrar, umsjónarkennarar og námsráðgjafar grunnskóla geta pantað tíma til að fá kynningu á skólanum, skilyrðum til náms og þeim stuðningi sem stendur til boða.

Móttökuviðtal

Nemandi mætir í viðtal með forráðamönnum, námsráðgjafa og íslenskukennurum. Þar er greint hvaða stuðning nemandi þarf á að halda. Námsráðgjafar og íslenskukennarar eru nemendum með annað móðurmál en íslensku til aðstoðar og hitta þessa nemendur a.m.k. einu sinni í mánuði.

Einstaklingsáætlun

  • Gera þarf áætlun fyrir hvern og einn nemanda í samráði við íslenskukennara.
  • Kanna þarf hvort grundvöllur er fyrir nemandann að fá mentor úr hópi nemenda


Aðstoð íslenskukennara

Á fyrstu vikum skólans kanna íslenskukennarar stöðu nemandans og benda í framhaldinu á úrræði við hæfi. Nemendur fá úthlutað stuðningskennara sem er nemandanum innan handar við móðurmálsþáttinn í öllum greinum. Þessi samskipti eru óformleg og á ábyrgð nemandans að sækja sér aðstoð (þetta getur verið í formi yfirlestrar á ritgerðum, samskipta í tölvupósti, funda o.s.frv). Það skal tekið fram að stærstur hluti íslenskunámsins fer fram utan skólans. Nemandinn þarf að taka ábyrgð á hinu almenna íslenskunámi sem gengur út á lestur, áhorf, hlustun, samskipti; þ.e. virkni og þátttöku í íslensku samfélagi.

Einingar fyrir móðurmál annað en íslensku

Stöðupróf í ýmsum tungumálum eru haldin tvisvar á ári á vegum Menntaskólans við Hamrahlíð og geta einingar úr þeim prófum komið í stað annars erlends tungumáls eða valgreina. Mikilvægt er að veita nemendum með annað móðurmál en íslensku tækifæri til að viðhalda móðurmáli sínu.

Námsráðgjöf

Æskilegt er að nemandi hafi fasta viðtalstíma hjá námsráðgjafa.

Nemendur geta sótt um lengri próftíma, munnleg próf eða önnur úrræði eftir því sem við á.